Í nóvember fundaði Manuel Rocha, sem hefur nú verið ákærður fyrir njósnir, með útsendara alríkislögreglunnar FBI í Miami. Þetta var einn af fyrstu fundum þessa 73 ára fyrrum sendiherra með útsendaranum.
Rocha hélt að hann væri að funda með fulltrúa kúbönsku leyniþjónustunnar og þess vegna talaði hann mjög opinskátt. Þeir hittust við ódýra matarvagna og taldi Rocha sig öruggan þar og því talaði hann frjálslega og fljótlega sagði hann svolítið sem fékk útsendara FBI til að gapa af undrun.
„Þetta hefur staðið yfir áratugum saman.“
„Hversu mörg?“ sagði útsendarinn.
„Tæplega 40 ár,“ svaraði Rocha.
„Vá,“ sagði útsendarinn þá.
Það var í byrjun mánaðarins sem saksóknarar lögðu fram gögnin um njósnir þessa meinta kúbanska njósnara. Málið hefur valdið mikilli ólgu innan bandarískra leyniþjónustustofnana því enginn veit hvaða upplýsingum Rocha lak til Kúbananna áður en hann var handtekinn.
Ekki hefur verið skýrt frá hvaða leyniþjónustustofnanir eða opinberu stofnanir Rocha gæti hafa aflað upplýsinga frá og látið Kúbönum í té. En eitt er öruggt, þetta er eitt versta njósnamál síðari tíma í Bandaríkjunum sagði John D. Feeley, fyrrum sendiherra Bandaríkjanna í Panama, í samtali við New York Times. „Manuel var bókstaflega með lyklana að öllu konungsríkinu. Ef eitthvað tengdist Kúbu, þá sá hann það,“ sagði Feeley.
Leynileg aðgerð
Rocha var handtekinn eftir leynilega aðgerð FBI. Útsendari alríkislögreglunnar fundaði þrisvar með honum og þóttist vera kúbanskur útsendari. Fundir þeirra voru teknir upp á myndbönd. Á þessum fundum kallaði Rocha Bandaríkin „óvininn“ og sagði einnig frá þeirri þjálfun sem hann hafði hlotið í njósnatækni á sama tíma og hann hafði út á við þóst vera mjög íhaldssamur Bandaríkjamaður sem studdi Donald Trump, fyrrum Bandaríkjaforseta.
Hann sagði einnig að það sem hann hefði gert fyrir Kúbu væri „gríðarlega stórt“.
Lestur ákæruskjalsins, sem er upp á 22 blaðsíður, er einnig næstum því eins og að lesa handrit að njósnamynd.
Rocha notaði vel þekktar aðferðir njósnara fyrir fundina með útsendara FBI til að ganga úr skugga um að hann væri ekki eltur. Þetta gerðist til dæmis þegar þeir hittust við kirkju eina í Miami. Áður en Rocha mætti til fundarins fylgdist hann með kirkjunni um langa hríð til að ganga úr skugga um að ekki væri fylgst með honum. Á leiðinni að kirkjunni fór hann stóra krókaleið til að hrista af sér þá sem kynnu hugsanlega að veita honum eftir för.
Ekki er vitað við hvaða kringumstæður Rocha var fenginn til að starfa fyrir kúbönsku leyniþjónustuna en vinir hans segja að á yngri árum hafi hann orðið sífellt vinstrisinnaðri. En eftir hvatningu frá kúbönsku tengiliðum sínum skipti hann um ham síðar og sýndi af sér and-kúbanska hegðun opinberlega.
Rocha var ráðinn til starfa hjá bandarísku utanríkisþjónustunni 1981 en þá hafði hann lokið námi við Georgetown háskólann í Washington. Hann fæddist í Kólumbíu en ólst upp í New York. Hann gegndi störfum diplómata í Bólivíu, Ítalíu, Argentínu og Dóminíska lýðveldinu. Í júlí 1994 var hann útnefndur í hið valdamikla embætti yfirmanns pólitískra málefna tengdum Latnesku-Ameríku í þjóðaröryggisráði Hvíta hússins en þá var Bill Clinton forseti. Þegar þarna var komið við sögu hafði hann stundað njósnir fyrir Kúbu í 13 ár.
1996 var hann gerður að næst æðsta yfirmanni sendiskrifstofu Bandaríkjanna í Havana á Kúbu.