Sky News segir að í skýrslunni komi fram að ríkasta 1% jarðarbúa losi jafn mikið koltvíoxíð og fátækustu tveir þriðju hlutar mannkyns.
Koltvíoxíðlosun ríkasta 1% var 16% af heildarlosun heimsins árið 2019 en það er jafnmikið og losun fátækustu fimm milljarða jarðarbúa.
Chiara Liguori, aðalloftslagsráðgjafi Oxfam, sagði að hinir ofurríku séu að „ræna plánetuna“ og hinir fátæku gjaldi fyrir það.
Hún sagði að þessi mikli munur á hversu mikið koltvíoxíð þessir tveir hópar losa sýni hvernig loftslagsvandinn og fátæktarvandinn tengjast og að tryggja verði að síhækkandi kostnaður af völdum loftslagsbreytinganna falli á þá sem bera mesta ábyrgð á þeim og geti greitt þennan kostnað.
Skýrsla Oxfam byggir á rannsókn sænsku umhverfismálastofnunarinnar þar sem lagt var mat á ætlaða losun mismunandi tekjuhópa á koltvíoxíði.