Fyrir fimm árum settu meðlimir sögufélagsins í þorpinu Collyweston á Englandi sér það markmið að finna glataðar leifar hallar frá 15. öld sem reist var í nágrenni þess svæðis þar sem þorpið stendur í dag. Höllin var í eigu lafði nokkurrar sem hét Margaret Beaufort en hún var amma Hinriks VIII, konungs Englands. Meðlimir sögufélagsins búa fæstir yfir sérþekkingu í sagnfræði eða fornleifafræði og því var ekki búist við miklum árangri af leitinni. Þessum hópi áhugamanna hefur hins vegar nú tekist að gera einmitt það sem búist var við að þau gætu ekki, þ.e. að finna höllina.
Þetta kemur fram í umfjöllun Allthatsinteresting.com.
Einn úr hópnum, Chris Close, segir að þau hafi ekki átt neina peninga og ekki haft neina áætlun en með mikinn áhuga í farteskinu hafi þeim tekist þetta. Hann segir næsta skref vera að reyna að komast að meiru um fólkið sem bjó í höllinni.
Collyweston er í Northamptonshire í miðhluta Englands.
Höllin, sem heitir Collyweston-höll, var í eigu lafðinnar þar til hún dó 1509 en eftir það drabbaðist hún smám saman niður. Árið 1650 keypti hollensk fjölskylda höllina og landið í kringum hana en ákvað að reisa sér ný híbýli á landinu og höllin varð á endanum jörðinni að bráð.
Hallarinnar er getið í rituðum heimildum en það voru fáar fornleifafræðilegar vísbendingar um hvar hún nákvæmlega stóð.
Ýmis munnmæli voru í þorpinu um höllina og ákveðið svæði í nágrenninu var kallað hallargarðurinn. Hver hafði sína hugmynd um hvar hún væri en enginn hafði hugmynd um stærð hennar.
Hópurinn notaði munnmælin og opinber gögn til að þrengja hringinn og finna svæðið þar sem líklegast var að uppgröftur bæri árangur. Leyfi fengust frá mörgum landeigendum fyrir uppgreftri á eignum þeirra.
Uppgreftir hófust árið 2018 en nokkurt hlé varð á þeim í Covid-heimsfaraldrinum. Hópurinn náði að safna nægilegu fé til að halda áfram og nýtti það til að geta notað ratsjá og skanna sem geta nýst til að sjá betur það sem er neðanjarðar. Með hjálp tækjanna sáu þau hvar leifar gamalla hallarveggja var að finna.
Við uppgröft á einkalóð fyrr á þessu ári náði hópurinn svo loks að grafa upp hluta af leifum hallarinnar. Niðurstöðurnar voru staðfestar af sérfæðingum við Háskólann í York.
Tækin og uppgreftir hópsins leiddu í ljós að höllin var mun stærri en áður var talið.
Rannsóknin hefur leitt í ljós að á blómatíma sínum gaf höllin öðrum setrum hefðarfólks ekkert eftir.
Þrír þjóðhöfðingjar Englands nýttu sér höllina. Konungarnir Hinrik VII, Hinrik VIII og drottningin Elísabet I. Þetta staðfesta ritaðar heimildir.
Elísabet I fyrirskipaði að byggt skyldi við höllina, þar á meðal stór veislusalur. Hann hefur ekki enn fundist.
Frekari uppgreftir munu fara fram á komandi ári og ætlunin er að gefa út frekari niðurstöður í september næstkomandi.
Höllin var í raun þyrping húsa og markmiðið er að komast að því hvaða tilgangi hver bygging þjónaði. Einnig er ætlunin að greina frekar arkitektúr hallarinnar.