fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Pressan

Djöfullinn lét mig gera þetta – Sagan af andsetna drengnum, meðalinu hennar mömmu og leigusalanum sem tapaði lífinu

Pressan
Föstudaginn 15. desember 2023 22:26

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það getur stundum verið erfitt að horfast í augu við raunveruleikann. Erfitt að sætta sig við það að innan með fólki geti leynst skrímsli án þess að við tökum eftir því. Oftast er raunin þó sú að allskonar fólk er fært um að fremja ódæðisverk, og geta þau sjaldnast kennt öðrum um. Þegar mál rata fyrir dómstóla er þó ýmislegt reynt til að komast undan ábyrgð. Það er þó ekki á hverjum degi sem einhver stendur upp í dómsal og tilkynnir viðstöddum að það hafi verið djöfullinn sjálfur sem stýrði hönd þeirra.

Þetta átti sér þó stað árið 1981 í Bandaríkjunum. Þar stóð hinn 19 ára gamli Arne Cheyenne Johnson upp og sagðist ekki bera ábyrgð á andláti leigusala síns. Hann hafi ekki stjórnað eigin gjörðum þar sem hann var á verknaðarstund andsetinn.

Um málið er fjallað í nýlegri heimildarmynd á Netflix, The Devil on Trial. Þar stígur Arne fram ásamt mágum sínum, David, Alan og Carl Glatzel.

Leikstjórinn Chris Holt sagði við Netflix:

„Það er vissulega til fólk sem lýgur. En ég sat með David og Arne og Alan og Carl klukkutímunum saman og frásögn þeirra breyttist aldrei. Ég tel að þeir hafi sagt mér satt – en þetta er þeirra túlkun á sannleikanum frekar en gallhörð staðreynd. En þeir trúa – og ég trúi – að þeir séu að segja satt.

______________

Hvað gerðist?

Arne Cheyenne var kannski bara 19 ára gamall en hann var tilbúinn að festa ráð sitt. Hann hafði því beðið um hönd kærustu sinnar, Debbie Glatzel og hún hafði hátíðlega játast honum. Framtíðin virtist björt og full af tækifærum.

Debbie kom úr stórri fjölskyldu sem á þessum tíma var að ganga í gegnum undarlegar aðstæður. Yngri bróðir Debbie, David Glatzel, var í hringiðu þessara atburða, aðeins 11 ára gamall.

Þetta byrjaði allt í júlí árið 1980. Þá voru David og Arne saman að hreinsa til í leiguíbúð sem Glatzel fjölskyldan ætlaði að búa í. David segist strax þá hafa séð gamlan mann með brennda húð. Maðurinn hafi varað David við því að ef fjölskyldan flytti inn, þá yrðu af því afleiðingar.

Enginn annar sá manninn, en David átti eftir að sjá hann ítrekað næstu mánuðina. Gamli maðurinn talaði stundum latínu, hótaði fjölskyldunni og sagðist ætla að ræna David sálinni. Davis sjálfur var farinn að haga sér undarlega.

Fjölskyldan segir að David hafi upp úr þurru farið að þylja upp kafla úr biblíunni eða úr ljóðinu Paradísarheimt. Líkami hans hafi tekið kippi eins og ósýnilegar hendur væru að hrista hann. Á líkama hans birtust marblettir og rispur sem enginn gat útskýrt.

Fjölskylda David varð eðlilega áhyggjufull. Þau skiptust á að vaka yfir drengnum, sem átti til að taka köst á nóttunni þar sem hann sparkaði, beit, hrækti og blótaði. David var varla læs en samt gat hann rekið nöfn 42 djöfla á latínu. Fjölskyldan ákvað að taka hann upp til að geta sannað mál sitt.

Arne og David

Særingamenn og djöflar

Glatzel fjölskyldan er kaþólsk svo á endanum ákváðu þau að leita til kirkjunnar. Þau halda því fram að prestur hafi verið sendur til þeirra til að skoða David, en sá hafi ekki geta skýrt ástandið. Loks hafi þau snúið sér að yfirnáttúrulegu rannsakendunum Lorraine og Ed Warren, sem eru þekkt fyrir rannsókn sína á meintum draugagangi í Amityville. Þau töldu augljóst að drengurinn væri andsetinn. Og til að losna við djöflana þyrfti að særa þá út. Það gekk ekki þrautalaust og fóru fram ítrekaðar særingarathafnir.

Í einni þeirra ákvað Arne að reyna að hjálpa. Hann hæddist að djöflinum og skoraði á hann að sleppa takinu af 11 ára drengnum og andsetja einhvern stærri, eins og Arne sjálfan.

„Láttu hann vera. Taktu mig. Taktu minn líkama,“ mun Arne hafa hrópað þrátt fyrir mótbárur prestanna og Warren hjónanna. Engu að síður hafi Arne haldið áfram. Hann var að ögra djöflinum.

Fljótlega eftir þetta hafi Arne byrjað að sýna einkenni þess að vera andsetinn. Til að mynda hafi hann ekið bifreið sinni á tré, en hann segir að djöfullinn hafi stýrt höndum hans og valdið árekstrinum. Hann kýldi í gegnum húsgögn, féll niður úr háu tré án þess að hljóta nokkurn skaða og svona mætti áfram telja. Fljótlega mun djöfullinn þó hafa tekið alla stjórn og við það hafi Arne misst meðvitund og verið farþegi í eigin líkama.

Warren hjónin voru miður sín. Eitthvað hræðilegt átti eftir að gerast. Þau leituðu til lögreglu og sögðu harmleik í uppsiglingu. Sem reyndist rétt.

Ed og Lorraine Warren

Leigusalinn tapar lífinu

Það var svo í febrúar 1981 sem Arne hrindi sig inn veikan í vinnuna. Hann hélt sig þó ekki heima heldur fór í vinnuna til unnustunnar. Þau voru á þessum tíma að leigja íbúð af vinnuveitanda Debbie, Alan Bono.

Alan Bono ákvað að bjóða unga parinu og nokkrum öðrum starfsmönnum í hádegismat. Þar fékk Bono sér nokkur rauðvínsglös og varð nokkuð kenndur. Arne og Debbie fylgdu Bono heim. Debbie ákvað að það þyrfti að hressa Bono við og stökk út í búð til að sækja pizzu. Þegar hún sneri til baka hafði andrúmsloftið súrnað. Arne og Bono höfðu farið að rífast yfir biluðu sjónvarpi. Debbie ákvað að grípa unnusta sinn og koma honum út áður en illa færi.

Þetta virtist ætla að ganga eftir, en þá skyndilega sneri Arne við og strunsaði aftur heim til Bono. Debbie segir erfitt að ná utan um það sem gerðist næst. Arne hafi urrað eins og villidýr og hún hafi séð glampa á eitthvað í loftinu. Lætin voru mikil en svo allt í einu skall á þögn. Þá sá hún Arne ganga stjarfan í burtu og Bono hneig í jörðina. Hann var með um fimm stór stungusár. Fimm klukkustundum síðar var Bono látinn.

Arne fannst svo um þremur kílómetrum frá vettvangi og var hnepptur í gæsluvarðhald. Hann var svo ákærður fyrir morð.

David, mögulega andsetinn

Djöfullinn lét mig gera þetta

Fjölmiðlar héldu ekki vatni yfir málinu, enda rannsakendurnir, Warren hjónin sem voru sérfræðingar í hinu yfirnáttúrulega, eins konar rokkstjörnur á þessum tíma. Það sló svo ekkert á áhuga þeirra þegar verjandi Arne steig fram og sagði skjólstæðing sinn saklausan á grundvelli þess að hafa verið andsetinn. Sagan segir að fyrsta dag réttarhaldanna hafi ljósin í dómsalnum flökt. Húsvörður hafi reynt að gera við þau, en ekkert gengið. Áfram héldu undarlegir hlutir að gerast.

Þetta náði þó ekki lengra en það að dómarinn skaut hugmyndina umsvifalaust niður. Að vera andsetinn gæti aldrei verið viðurkennd vörn í siðuðum dómsal. Þessi í stað var reynt að halda fram að Arne hafi banað Bono í sjálfsvörn. Kviðdómur var þó óviss. Undarlegir hlutir höfðu líka átt sér stað í kringum kviðdóminn og fjölskyldur þeirra, hlutir sem ekki var auðvelt að útskýra. Það var því niðurstaða þeirra að þó Arne væri sekur þá væri hann sekur um manndráp framið með óhörðnuðum ásetning. Honum var því aðeins gert að sæta fangelsi í 10-20 ár.

„Jafnvel þó dómarinn hafi ekki leyft okkur að útskýra fyrir kviðdómi að Arne var andsetinn, þá höfðu þau greinilega horft á sjónvarpið og lesið blöðin, þau höfðu séð forsíðurnar. Þau vissu hvað málið fjallað í raun um,“ sagði verjandi Arne. Hún tók fram að á þessum tíma hafi kaþólska kirkjan neitað að viðurkenna opinberlega að starfsmenn hennar framkvæmdu særingar. Það hefði öllu breytt ef kirkjan hefði stutt við málið. Ferlið til að fá særingamann frá kirkjunni var flókið og fól í sér mikla pappírsvinnu. Fulltrúar kirkjunnar þurftu að staðfesta tilvikið svo ekki bara hver sem er gæti gengist undir særingarathöfn.

Svo fór þó að hann afplánaði aðeins fimm ár, enda þótti hann fyrirmyndar fangi. Hann hafi verið heilbrigður á líkama og sál. Hann hafði þó á þessum fimm árum gengið að eiga Debbie sína, klárað gagnfræðaskóla og klárað þó nokkra áfanga í háskóla. Hann og Debbie létu svo lítið fyrir sér fara .

„Ég hef engan meitt. Aldrei. Það er ekki möguleiki að ég hafi gert þetta. Þið eruð að ásaka ranga manneskju,“ sagði Arne í heimildarmyndinni.

Önnur hlið á málinu

Carl Glatzel, eldri bróðir David og Debbie, er þó ósammála. Hann segir að sögusagnir hafi gengið um að Debbie væri að halda við leigusalann sinn, og Arne hafi orðið brjálaður af afbrýði.

„Það er ekkert djöfullegt hér á ferðinni.“

Carl heldur sjálfur að yngri bróðir hans hafi ekki verið andsetinn. Hann hafi verið að fara í gegnum gamla kassa frá foreldrum sínum þegar hann fann handskrifaðan miða frá móður sinni þar sem hún skrifaði að fjölskylda hennar hafi fengið „meðalið“ sitt það kvöldið. Carl telur ljóst af þessu að móðir þeirra hafi verið að byrla þeim svefnlyfið Sominex. Lyf sem var þekkt fyrir að valda skapsveiflum og ofsjónum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Hjartalæknir segir að þessar fæðutegundir verndi hjartað

Hjartalæknir segir að þessar fæðutegundir verndi hjartað
Pressan
Fyrir 2 dögum

13 ára drengur gerði magnaða uppgötvun þegar hann var í gönguferð

13 ára drengur gerði magnaða uppgötvun þegar hann var í gönguferð
Pressan
Fyrir 2 dögum

Marsbíllinn Curiosity uppgötvaði mjög sjaldgæfa brennisteinskristala fyrir slysni

Marsbíllinn Curiosity uppgötvaði mjög sjaldgæfa brennisteinskristala fyrir slysni
Pressan
Fyrir 2 dögum

Stólpagrín gert að jólaljósum bæjarins – Líkjast nærfötum á þvottasnúru

Stólpagrín gert að jólaljósum bæjarins – Líkjast nærfötum á þvottasnúru
Pressan
Fyrir 4 dögum

Íbúarnir eru ósáttir við jólasveininn

Íbúarnir eru ósáttir við jólasveininn
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hrópaði á föður sinn í dómsal: „Þú munt deyja eins og hundur!“

Hrópaði á föður sinn í dómsal: „Þú munt deyja eins og hundur!“
Pressan
Fyrir 5 dögum

Refsivaldur Alaska – Maðurinn sem var rændur æskunni framdi hrottaleg ofbeldisbrot en er samt hylltur sem hetja

Refsivaldur Alaska – Maðurinn sem var rændur æskunni framdi hrottaleg ofbeldisbrot en er samt hylltur sem hetja
Pressan
Fyrir 5 dögum

Texas höfðar mál á hendur lækni í New York – Sætta sig ekki við sendingu hans

Texas höfðar mál á hendur lækni í New York – Sætta sig ekki við sendingu hans