Öryggisvörður á spítala í borginni Phoenix í Arizona í Bandaríkjunum hefur verið sakaður um að hafa átt samræði við lík 79 ára gamallar konu í líkhúsi spítalans. Efðaefni mannsins fannst á líki konunnar og í kjölfarið var hann handtekinn síðastliðinn þriðjudag.
Mirror greinir frá þessu.
Maðurinn heitir Randall Bird og er 46 ára gamall. Málið kom upp 24. október síðastliðinn þegar lögregla var kölluð að spítalanum. Bird hafði þá verið gripinn með opinn líkpoka, sem konan var í. Hann hafði tekið beltið af sér og var mjög sveittur.
Meðal verkefna sem féllu undir starfssvið hans á spítalanum var að flytja lík og koma þeim fyrir frysti í líkhúsi spítalans. Tvö vitni segjast hafa séð hann með lík konunnar í frystinum og segja að hann hafi hagað sér mjög grunsamlega.
Þegar lögreglan var kölluð til sögðu vitnin lögreglumönnum að Bird hefði verið mjög sveittur og afar taugaóstyrkur þegar þau komu að honum við það sem vitnin töldu vera kynferðislegt athæfi með lík konunnar. Vitnin sögðu að buxnaklauf Bird hefði verið opin og að einkennisbúningur hans hefði verið krumpaður og tætingslegur.
Lögreglunni var tjáð að líkið hefði legið á sjúkrarúmi með andlitið niður. Belti Bird var á rúminu.
Bird sagði að hann hefði fallið í yfirlið. Í fallinu hefði hann gripið í líkpokann og óvart opnað hann. Hann sagðist hafa skemmt rennilásinn við þetta en vitnin segja að rennilásinn hafi verið óskemmdur og líkpokinn órifinn.
Líkið var rannsakað, á því reyndust vera áverkar og erfðaefni mannsins fannst einnig á því.
Í yfirlýsingu tjáði spítalinn sorg og hneykslun yfir gjörðum Bird.
Honum hefur verið sagt upp störfum og spítalinn hefur kært hann til lögreglu.
Spítalinn segist leggja mikla áherslu á að starfsmenn hans vandi sig í störfum sínum og sýni lifandi sem látnum virðingu og samhyggð.
Bird hefur verið látinn laus gegn tryggingu.