Bandarískur lögreglumaður sem var farþegi í flugvél á leið frá New York til Bretlands var handtekinn af breskum yfirvöldum, eftir að vélin lenti í London, grunaður um að hafa framið kynferðisbrot á meðan fluginu stóð. Lögreglumaðurinn starfar hjá alríkisstofnun sem heitir United States Marshals Service en eitt helsta hlutverk hennar er að finna og handsama fólk á flótta undan réttvísinni. Lögreglumaðurinn var á leið til Bretlands að ná í mann sem framselja átti þaðan til Bandaríkjanna.
Hann var farþegi í flugvélinni ásamt öðrum lögreglumanni sem starfar hjá sömu stofnun. Þegar nokkuð var liðið á flugið gaf kona sig á tal við áhöfn vélarinnar og sagði að hún hefði verið snert á óviðeigandi hátt.
Flugvélin var á vegum flugfélagsins Delta. Talsmaður flugfélagsins staðfesti að upp hafi komið atvik, vegna óstýrilátrar hegðunar farþega, í fluginu sem hafi orðið til þess að breskir lögreglumenn komu um borð þegar flugvélin lenti á Heathrow flugvelli og að flugfélagið sýndi fulla samvinnu við rannsókn málsins.
Lögreglumennirnir tveir eru sagðir hafa drukkið áfengi á meðan fluginu stóð. Sá sem var handtekinn er enn í haldi lögreglu í Bretlandi en hinum var ekki haldið og hann hefur þegar snúið til baka til Bandaríkjanna.
Maðurinn sem þeir áttu að sækja er grunaður um fjársvik.
Talsmaður stofnunarinnar sem lögreglumaðurinn starfar hjá segir að stofnunin sé meðvituð um óviðeigandi hegðun hans og að hann hafi þar að auki verið ölvaður. Stofnunin sé í samskiptum við bresk lögregluyfirvöld vegna málsins. Hann segir stofnunina taka allar ásakanir um misferli af hálfu starfsmanna sinna alvarlega. Hegðun lögreglumannana tveggja gangi gegn grunngildum stofnunarinnar og sé ekki dæmi um á hvaða stigi fagmennska starfsmanna hennar sé.
NBC News greindi frá.