fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
Pressan

Tommy sagðist vera hatrið holdi klætt – „Ég veit ekki hvað ást er“

Pressan
Föstudaginn 1. desember 2023 22:00

Tommy Lynn Sells árið 2010-Skjáskot/Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 1992 var 19 ára kona á leið fótgangandi í heimsókn til vinkonu sinnar í Charleston í Vestur-Virginíu í Bandaríkjunum. Á vegi hennar varð þá maður sem hélt á heimagerðu skilti þar sem hann bauð vinnu sína í skiptum fyrir mat. Maðurinn bar sig illla og sýndi ungu konunni myndir af konu sinni og börnum.

Unga konan vorkenndi manninum og bauð honum heim til sín í mat. Þegar þangað var komið læsti maðurinn hins vegar þau inni. Réðst hann síðan á konuna með hníf og reyndi að nauðga henni. Unga konan gafst þó ekki upp. Hún veitti árásarmanninum höfuðhögg, náði hnífnum af honum og stakk hann síðan margsinnis. Árásarmaðurinn náði hins vegar að rota hana með stól.

Þegar unga konan, sem heitir Fabienne Witherspoon, rankaði við sér lá hún á spítala. Hún hafði þurft að undirgangast aðgerð vegna mikil sárs á höfði og vegna djúpra skurða á annarri höndinni. Árásarmaðurinn var líka á spítalanum en þó í haldi lögreglu. Witherspoon hafði náð að skera í nýru hans og lifur og þar að auki í annað eistað.

Witherspoon sagði síðar að það hefði komið henni sjálfri á óvart hversu harða mótspyrnu hún veitti gegn árásarmanninum. Þar sem hún lá á spítalanum eftir árásina vissi hún hins vegar ekki að maðurinn sem hún náði að yfirbuga var fjöldamorðingi.

Tommy Lynn Sells hafði þegar framið mörg morð þegar Fabienne Witherspoon varð á vegi hans. Hann var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir árásina og þegar hann slapp út hélt hann morðæðinu áfram

Yfirgefinn eftir skelfilega uppákomu

Tommy Lynn Sells fæddist í Oakland í Kaliforníu árið 1964 og átti alls ekki góða æsku. Hann var eitt sjö barna einstæðrar móður og var þar að auki tvíburi. Bæði hann og tvíburasystir hans fengu heilahimnubólgu þegar þau voru 18 mánaða. Hún dó en hann lifði af.

Þegar hann var sjö ára var Sells byrjaður að drekka áfengi. Þegar hann var átta ára komst hann í kynni við mann sem hann sagði að hefði misnotað sig kynferðislega. Sells sagði að móðir hans hafi hvatt manninn til þess. Þegar hann var 10 ára var Sells byrjaður að reykja marijúana.

Þegar hann var 13 ára bjó fjölskyldan í Missouri ríki. Kvöld eitt lagðist Sells nakinn upp í rúm við hliðina á ömmu sinni sem svaf. Eftir það yfirgaf fjölskyldan heimilið og skildi Sells einan eftir.

Sells sárnaði þetta mjög. Hann hélt í ferðalag þvert yfir Bandaríkin og framdi fjölda glæpa á leiðinni. Áttu þessi síbrot hans eftir að standa næstu 20 árin.

Fljótlega fór hann að myrða og sagði síðar í sjónvarpsviðtali að morðin hefðu komið honum í sams konar vímu og hann fór í við að neyta fíkniefna.

Fjöldinn á reiki

Sells ferðaðist um Bandaríkin, vann tilfallandi störf og framdi hryllileg morð í leiðinni. Hann kallaði sjálfan sig „Coast to Coast Killer“. Á endanum var hann dæmdur fyrir tvö morð en játaði mun fleiri. Lögreglan telur að hann hafi framið 22 morð en Sells hefur fullyrt að hann hafi myrt yfir 70 manns.

Meðal morðanna sem lögreglan hefur tengt við Sells eru eftirfarandi. Viðkvæmir eru eindregið varaðir við eftirfarandi lýsingum.

Árið 1985 myrti hann konu að nafni Ena Cordt og fjögurra ára son hennar. Hann hafði hitt mæðginin á karnivali í Missouri þar sem hann starfaði. Cordt bauð honum heim til sín. Þau stunduðu kynlíf og síðar þá nótt barði Sells Cordt og son hennar til bana með hafnaboltakylfu drengsins.

Í maí 1987 hélt kona, Suzanne Korcz, á brott frá bar í Rockport í New York ríki, ein síns liðs. Hún hvarf og lík hennar fannst átta árum síðar. Sells hefur játað að hafa myrt hana.

Um haustið þetta sama ár hvarf 21 árs gömul kona, Stefanie Kelly Stroh, á puttaferðalagi um Nevada ríki. Sells segist hafa tekið hana upp í bíl sinn og síðar kyrkt hana til bana. Líkið hefur aldrei fundist.

Einstaklega sjúklegt ferfalt morð

Það er rík ástæða til að vara eindregið við eftirfarandi lýsingu á ferföldu morði sem Sells framdi í nóvember 1987.

Hann var þá staddur í bænum Lana í Illinois ríki og var boðið í heimsókn til Russell Keith Dardeen og fjölkyldu hans.

Sells byrjaði á því að myrða fjölskylduföðurinn, því næst nauðgaði hann eiginkonu Russell, Ruby Elaine, og myrti 2 ára gamlan son þeirra með kylfu.

Loks barði hann Ruby til bana en hún var komin 7 mánuði á leið og svo harkalegar voru barsmíðarnar að fæðing ófædda barnsins fór af stað. Sells endaði á því að berja nýfætt stúlkubarnið til bana.

Tíu árum síðar komst Sells inn á heimili í Lawrenceville í Illinois. Þar stakk hann 10 ára dreng, Joel Kirkpatrick, til bana í rúmi hans.

Móðir drengsins Julie Rea-Harper kom þar að og náði að hrekja Sells á flótta. Sells var með grímu en lögreglan trúði ekki frásögn móðurinnar um grímuklæddan árásarmann. Engin merki um átök eða innbrot voru í íbúðinni. Julie var dæmd fyrir að myrða son sinn en látin laus 2003 eftir að Sells játaði morðið og skýrði frá atriðum sem hann hefði ekki getað vitað hefði hann ekki verið á staðnum. Hann var þó aldrei ákærður fyrir þetta morð.

Þetta sama ár, 2003, játaði Sells morð á öðru barni. Árið 1999 rændi hann 9 ára gamallri stúlku í San Antonio í Texas. Hún hét Mary Beatrice Perez og Sells nauðgaði henni og kyrkti hana með hennar eigin bol. Fyrir þetta morð fékk Sell lífstíðardóm.

Þessar játningar komu í kjölfar þess að Sells hafði verið dæmdur til dauða fyrir morð á enn einu barninu. Á gamlársdag 1999 myrti hann 13 ára gamla stúlku Kaylene Harris. Hann braust inn á heimili hennar í Del Rio í Texas, nauðgaði henni, skar hana á háls og stakk hana 16 sinnum. Sells hafði vingast áður við föður stúlkunnar og vissi að hann yrði að heiman þetta kvöld.

Óvæntur gestur varð honum að falli

Sells vissi hins vegar ekki að 10 ára gömul vinkona Harris, Krystal Surles, var að gista á heimilinu. Þegar hann sá hana skar hann hana á háls líka og hélt síðan á brott. Krystal var hins vegar enn á lífi en þóttist vera dáin svo Sells myndi örugglega fara. Hún náði að komast út og gera nágrönnum viðvart þótt barki hennar væri illa farinn eftir árásina. Krystal var flutt í skyndi á spítala og náði á endanum fullum bata. Hún gaf greinargóða lýsingu á Sells sem varð til þess að lögreglunni tókst að bera kennsl á hann.

Sells var dæmdur til dauða fyrir þetta morð sem varð hans síðasta eftir því sem best er vitað.

Hann var tekinn af lífi 2014.

Fjórum árum áður veitti hann sjónvarpsstöðinni ABC viðtal og lét þá eftirfarandi orð falla:

„Ég er hatur. Þegar þú sérð mig sérðu hatur. Ég veit ekki hvað ást er. Það eru tvö orð sem mér er illa við að nota, ást og fyrirgefðu. Það er vegna þess að ég lifi fyrir hatur.“

Það var allthatsinteresting.com sem greindi frá.

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Maðurinn í Teslunni: Konan fór frá honum um jólin vegna gruns um framhjáhald

Maðurinn í Teslunni: Konan fór frá honum um jólin vegna gruns um framhjáhald
Pressan
Fyrir 2 dögum

Nóbelsverðlaunahafi segir auknar líkur á að gervigreind útrými mannkyninu

Nóbelsverðlaunahafi segir auknar líkur á að gervigreind útrými mannkyninu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þetta hefur aspasspákonan að segja um árið 2025

Þetta hefur aspasspákonan að segja um árið 2025
Pressan
Fyrir 3 dögum

Skoskur grínisti sturlaðist á bandarískum flugvelli

Skoskur grínisti sturlaðist á bandarískum flugvelli
Pressan
Fyrir 4 dögum

Árásarmaðurinn fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum og þjónaði í hernum – Lögregla skoðar möguleg tengsl við ISIS

Árásarmaðurinn fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum og þjónaði í hernum – Lögregla skoðar möguleg tengsl við ISIS
Pressan
Fyrir 4 dögum

Dularfulla brúin í Skotlandi – Af hverju stökkva hundar í dauðann þegar þeir koma að henni?

Dularfulla brúin í Skotlandi – Af hverju stökkva hundar í dauðann þegar þeir koma að henni?