Um er að ræða tegund sem kallast De Winton‘s gullmoldvarpa en hún hafði ekki sést síðan árið 1936. Þetta eru tiltölulega litlar moldvörpur og auðþekkjanlegar á fallegum gulllituðum feldi. Þær eru blindar en með afar góða heyrn sem kemur að góðum notum, einkum þegar kemur að því að veiða skordýr.
Moldvarpan fannst á strönd í Port Nolloth á vesturströnd Suður-Afríku og voru það vísindamenn við Háskólann í Pretoríu sem fundu hana.
Til að vera alveg vissir voru tekin DNA-sýni úr jarðvegi þar sem moldvarpan hafði spókað sig og leiddi sú rannsókn í ljós að um var að ræða þessa sjaldgæfu tegund. Voru niðurstöður rannsóknarinnar birtar í tímaritinu Biodiversity and Conservation á dögunum.