Stjórnvöld í Kreml dreifðu sjálf þeim sögusögnum fyrir rúmri viku að Vladimir Pútín, Rússlandsforseti, væri við dauðans dyr. Þetta fullyrða Úkraínumenn en New York Post fjallar um málið.
Orðrómur fór af stað í októberlok að Pútín væri við grafarbakkann eftir alvarlegt hjartaáfall og tvífari hans sæi um að koma fram opinberlega. Sagan fór á flug og meðal annars var greint frá því að Pútín hefði látist þann 27. október síðastliðinn í höll í Valdai, talsvert fyrir utan Moskvu, og þar væri lík hans geymt í frysti. Miðlar á borð við Reuters fjölluðu um málið en talsmaður Kreml hló að sögusögnunum og vísaði þeim á bug. Nú fullyrða sumsé Úkraínumenn að Rússar hafi komið orðróminum af stað.
Tilgangurinn hafi verið sá að athuga hverjar vinsældir forsetans væru í heimalandinu og styrkja ítök hans.
Viðmælandi New York Post, Andrii Yusov, segir að tilgangur slíkra falsfrétta sé að fylgjast með viðbrögðum samfélagsins, hver viðbrögð ýmsa einstaklinga eru, ekki síst í efsta lagi samfélagsins, og viðbrögðum fjölmiðla.
„Með þessum hætti þá lærir veldi hans, sem byggt er á vinnu leyniþjónustunnar, hvernig best sé að halda völdum áfram,“ sagði Yusov.