Hinn þekkti fréttaþulur hjá BBC, Huw Edwards, snýr ekki til baka úr leyfi sínu sem staðið hefur yfir frá því í sumar.
Huw var sakaður um að hafa greitt 17 ára unglingi fyrir djarfar ljósmyndir. Rannsókn lögreglu leiddi ekkert saknæmt í ljós en BBC hóf sína eigin innanhússrannsókn á hegðun Huw. Metro greinir frá því að í kjölfar þeirrar rannsóknar sé niðurstaðan sú að Huw Edwards snúi ekki til baka á skjáinn.
Huw Edwards er 62 ára gamall og er einn þekktasti sjónvarpsmaður Englands. Hann á nú í viðræðum við BBC um framtíð sína hjá stofnuninni en heimildarmenn Metro segja að ferli hans þar sé lokið.
Vinir sjónvarpsmannsins segja að hann vilji að BBC lýsi því yfir að hann hafi ekki framið lögbrot. Vinir hans segja óréttlátt að hann missi starf sitt vegna „flókinna einkamála“.
Alls hafa þrjú ungmenni sakað Huw Edwards um óviðeigandi hegðun í sinn garð. Meginávirðingarnar á hendur honum eru hins vegar þær að hann hafi greitt 17 ára unglingi stórfé fyrir djarfar ljósmyndir.