Framleiðsla á pálmaolíu og fleira hafa leitt til þess að mjög hefur verið gengið á skóglendi og það getur leitt til þess að sjúkdómar berist úr dýrum í menn.
Mirror segir að samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar, sem hefur verið birt í vísindaritinu Frontiers in Veterinary Science, þá séu sterk tengsl á milli heimsfaraldra og eyðingar skóglendis.
Þegar skógum er eytt neyðast dýrin, sem þar búa, til að leita sér að nýjum heimkynnum sem eru þá oft nær bústöðum manna. Þetta getur aukið líkurnar á að sjúkdómar berist úr dýrum í menn eins og talið er að hafi gerst þegar COVID-19 kom upp á kjötmarkaði í Wuhan í Kína síðla árs 2019.
Ein af helstu ástæðunum fyrir skógareyðingu er vinnsla pálmaolíu sem er í pálmatrjám. Olían er notuð við framleiðslu margvíslegra afurða, þar á meðal snyrtivara, þrifaefna og hnetusmjörs.