Hinar 16 ára gömlu Rachel Shoaf, Shelia Eddy, og Skylar Neese virtust vera bestu vinkonur. Þær voru allar frá Vestur-Virginíu ríki í Bandaríkjunum. Kvöld eitt í júlí 2012 lokkuðu Rachel og Shelia Skylar til fundar við sig og enduðu vinkonurnar í skógi í Pennsylvaníu-ríki.
Þar stungu Rachel og Shelia Skylar til bana. Leitað var að Skylar í marga mánuði og Rachel og Shelia þögðu um glæp sinn en Rachel lét loks undan þrýstingi lögreglu og vísaði á lík Skylar. Þegar Rachel var spurð hvers vegna hún og Shelia hefðu myrt Skylar var svarið einfalt:
„Okkur líkaði bara ekki við hana.“
Rachel Shoaf er fædd í júní 1996 og var talin vera bæði frambærileg og efnileg. Hún var góður námsmaður, var í bæði söng- og píanónámi og tók þátt í leiklistarstarfi. Hún, Shelia og Skylar voru bestu vinkonur og eyddu miklum tíma saman.
Vinkona fjölskyldu Rachel sagði að það hefði ekki verið nein ástæða fyrir því að hún gæti ekki notið lífsins. Fjölskyldunni hefði þótt afskaplega vænt um hana.
Síðustu vikurnar fyrir morðið fór hins vegar að bera á breytingum á hegðun Rachel. Hún fór að læðast út, skrópa í skólanum og reykja marijúana.
Á þessum tíma fór líka að bera á spennu í vinkonuhópnum en Skylar greindi frá því á samfélagsmiðlum í byrjun júlí 2012 að vinkonur hennar, Rachel og Shelia, hefðu verið að skilja hana eftir útundan.
Þetta var Skylar ekki sátt við og lét vinkonur sýnar heyra það í færslunum. Daginn eftir að hún birti síðustu færsluna hvarf Skylar.
Rétt eftir miðnætti þann 6. júlí 2012 laumaðist Skylar út af heimili sínu til að hitta Rachel og Shelia og reykja með þeim marijúana. Á myndbandi úr eftirlitsmyndavél mátti sjá Skylar setjast inn í bíl Shelia. Það var í síðasta sinn sem að Skylar sást á lífi.
Það sem hún vissi ekki var að Rachel og Shelia höfðu komið með hnífa, hreinsiefni, skóflu og föt til skiptanna.
Stúlkurnar reyktu marijúana og rúntuðu en keyrðu á endanum yfir ríkismörk Pennsylvaníu og Vestur-Virginíu og bifreiðin var loks stöðvuð í skóglendi í fyrrnefnda ríkinu.
Þær stigu út úr bifreiðinni en Skylar sneri sér við og ætlaði að finna kveikjara sem hafði orðið eftir. Rachel og Shelia töldu þá upp að þremur, komu aftan að Skylar og stungu hana í bakið þangað til hún var látin.
Rachel og Shelia reyndu að grafa lík Skylar en jörðin á svæðinu var of hörð. Þær huldu það því með greinum og mold og höfðu sig síðan á brott.
Foreldrar Skylar tilkynntu um hvarf hennar nokkrum klukkustundum síðar. Lögreglan taldi í fyrstu að hún hefði strokið að heiman.
Shelia tjáði móður Skylar að hún og Rachel hefðu sótt hana. Þær þrjár hefðu rúntað og reykt marijúna en á endanum hafi Skylar verið skutlað heim rétt fyrir miðnætti. Upptökur úr öryggismyndavélum áttu hins vegar eftir að sýna fram á að Skylar var sótt eftir miðnætti.
Daginn eftir morðið fór Rachel ásamt móður sinni og vinkonu hennar í bátsferð. Þegar vinkonan greindi Rachel frá því að Skylar vinkona hennar væri horfin sýndi hún lítil sem engin viðbrögð.
Mánuðirnir liðu og hvorki fannst tangur né tetur af Skylar. Rachel og Shelia héldu sig við sömu söguna um atburðarás kvöldsins sem Skylar hvarf. Lögreglumönnum var hins vegar farið að gruna að þær væru ekki að segja satt. Frásagnir þeirra beggja voru nákvæmlega eins sem lögreglunni þótti merki um að þær hefðu samræmt frásagnir sínar og æft hvað þær ættu að segja.
Þegar hálft ár var liðið frá morðinu, í desember 2012, þoldi Rachel ekki meira. Hún fékk taugaáfall og var lögð inn á geðsjúkrahús. Eftir að hún kom af sjúkrahúsinu játaði hún fyrir lögreglunni að hún og Shelia hefðu myrt Skylar. Þegar hún var spurð um ástæðu svaraði hún:
„Okkur líkaði bara ekki við hana.“
Rachel vísaði lögreglunni á líkið og hún og Shelia voru á endanum handteknar.
Þeim sem þekktu Rachel var gífurlega brugðið við tíðindin og almennt var það fólk sammála um að hún hefði ekki sýnt nein merki um að hún væri fær um að beita svo miklu ofbeldi.
Rachel gerði samkomulag við saksóknara og var dæmd 2014 í 30 ára fangelsi með möguleika á reynslulausn eftir 10 ár. Hún bað fjölskyldu Skylar afsökunar og sagðist hafa orðið hrædd og hafa flækst í nokkuð sem hún hefði ekki viljað gera.
Faðir Skylar tók afsökunarbeiðnina ekki til greina.
Shelia gerði hins vegar ekkert samkomulag við saksóknara og var dæmd í lífstíðarfangelsi en með möguleika á reynslulausn eftir 15 ár.
Orðrómur var næstu árin uppi um að raunveruleg ástæða að baki morðinu hafi verið að Rachel og Shelia hafi átt í ástarsambandi og viljað koma í veg fyrir að Skylar afhjúpaði það.
Í maí síðastliðnum þegar fjallað var um hvort Rachel ætti að fá reynslulausn staðfesti hún þetta. Hún og Shelia hefðu verið hræddar um hvað myndi gerast ef Skylar segði frá leyndarmáli þeirra. Eftir að Skylar hefði komist að þessu hefði komið upp mikil spenna á milli þeirra sem hefði á endanum orðið fjandsamleg. Þær hefðu ekki haft þroska til að höndla þessar deilur og spennu og hefðu einfaldlega viljað að þetta hætti allt saman.
Faðir Skylar vísaði þessu alfarið á bug. Hann fullyrti að dóttir sín hefði ekkert haft á móti slíku sambandi og hún hefði átt aðra samkynhneigða vini. Hann mælti eindregið með því að Rachel yrði ekki veitt reynslulausn og sagði hana vera illgjarnan og kaldrifjaðan morðingja. Hún sæi svo sannarlega ekki eftir því að hafa myrt Skylar.
Orðið var við beiðni föður Skylar og Rachel mun því sitja lengur í fangelsi en búist er við að hún fái reynslulausn 2028.
Allthatsinteresting.com greindi frá.