Á þessu ári hafa yfir 40 einstaklingar verið skotnir til bana í 290 skotárásum í landinu. Í nótt voru tvær konur skotnar til bana í Tullinge í Stokkhólmi en langflest morðin tengjast glæpagengjum sem berjast um yfirráðin í undirheimum Svíþjóðar.
Á listanum sem nú gengur um TikTok er að finna nöfn og heimilisföng fjölda fólks.
Petter Schröder, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar í Västernorrland, segir við Sveriges Television að ástæða sé til að taka listanum með fyrirvara. Líklega sé um einhverskonar gabb að ræða og dæmi séu um að fólk sem tengist skipulagðri glæpastarfsemi ekki á nokkurn hátt sé á honum.
Þannig hefur lögregla verið í samskiptum við einstaklinga á listanum sem búsettir eru í Sundsvall. Þeir hafi ekki hugmynd um hvers vegna nöfn þeirra rötuðu á listann. „Þetta skapar ótta og áhyggjur hjá þessu fólki og aðstandendum þeirra,“ segir Schröder.
Lögregla er með málið til skoðunar og miðar rannsókn meðal annars að því að komast að því hver bjó listann til. Það getur þó reynst þrautin þyngri, segir Schröder.