Öldruð frönsk hjón hafa lögsótt listaverkasala sem keypti afríska andlitsgrímu af þeim á andvirði 129 sterlingspunda (rúmlega 22.000 íslenskar krónur) en seldi hana síðar á andvirði 3,6 milljóna sterlingspunda (tæplega 613 milljónir íslenskra króna).
Hjónin, sem eru 81 og 88 ára gömul, voru árið 2021 að flytja úr húsi sínu í Nimes í Frakklandi og ákváðu að selja grímuna. Ónefndur listaverkasali keypti grímuna síðar sama ár.
Listaverkasalinn seldi grímuna nokkrum mánuðum seinna á uppboði í borginni Montpellier og seldist hún á áðurnefnda upphæð.
Gríman er upprunin frá Gabon og kallast grímur af þessu tagi Fang. Þær eru notaðar við athafnir eins og til dæmis brúðkaup og útfarir.
Afi eigimannsins kom upphaflega með grímuna til Frakklands en hann var háttsetur embættismaður franskra nýlenduyfirvalda. Hjónin gerðu sér enga grein fyrir verðmæti grímunnar fyrr en þau lásu um það í fjölmiðlum fyrir hversu háa upphæð listaverkasalinn seldi hana. Þau töldu listaverkasalann hafa svindlað á sér og fóru þess vegna í mál við hann.
Málið er enn til meðferðar fyrir frönskum dómstólum en fyrr á þessu ári komst dómstóll að þeirri niðurstöðu að lagalegur grundvöllur væri fyrir málsókninni og að allur ágóði listaverksalans skyldi vera frystur þar til niðurstaða fæst í málið.
Hjónin vilja meina að listaverkasalinn hafi strax áttað sig á verðmæti grímunnar og leynt því fyrir þeim. Þau benda á að hann hafi ekki haft grímuna til sölu í verslun sinni heldur haft samband við uppboðshaldara til að fá mat á fjárhagslegu verðmæti grímunnnar.
Einn upphoðshaldari sem hann hafði samband við er sérfræðingur í afrískum listmunum og lét hann rannsaka grímuna sérstaklega.
Á endanum var þó gríman seld á rúmlega tífalt hærri upphæð en hún var metin á.
Listaverkasalinn bauð hjónunum að greiða þeim upphæðina sem gríman var upphaflega metin á áður en hún var seld á uppboðinu en börn þeirra fengu þau til að hafna því boði.
Fang-grímurnar eru skornar út úr tré og fagurlega skreyttar. Það er samnefndur ættbálkur sem býr þær til en fólk úr ættbálknum býr í Gabon, Kamerún og Miðbaugs-Gíneu.
Gríman sem deilt er um er sögð vera frá 19.öld og hafa tilheyrt leynifélagi sem í voru karlmenn af Fang-ættbálknum. Gríman er skreytt að neðanverðu á þann hátt að það líkist skeggi.
Í dómsskjölum kemur fram að grímur eins og sú sem deilt er um í dómsmálinu séu afar sjaldgæfar og aðeins sé um tylft þeirra til í söfnum á heimsvísu.
Það var Daily Mail sem greindi frá