fbpx
Laugardagur 18.janúar 2025
Pressan

Níu ára stúlku í útilegu líklega rænt

Pressan
Mánudaginn 2. október 2023 22:00

Charlotte Sena. Mynd úr safni Sena fjölkyldunnar:Skjáskot-CNN

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa í dag greint frá máli níu ára stúlku sem hvarf af tjaldsvæði í New York ríki síðastliðinn laugardag en talið er líklegt að stúlkunni hafi verið rænt.

Stúlkan heitir Charlotte Sena og hvarf síðastliðið laugardagskvöld. Í fréttum CNN kemur fram að fjölskylda hennar hafi óskað eftir aðstoð almennings við leitina að henni en fjölskyldan óttast mjög að Charlotte hafi verið rænt.

Charlotte og fjölskylda hennar voru í útilegu í einum af opinberum þjóðgörðum New York ríkis (Moreau Lake State Park). Hún fór ásamt nokkrum vinum í hjólatúr, síðastliðið laugardagskvöld að staðartíma, en kom ekki til baka.

Ríkislögregla New York ríkis hefur yfirumsjón með leitinni og hún telur að Charlotte sé líklega í mikilli hættu.

Eftir mikla leit í þjóðgarðinum sem bar ekki árangur ákvað ríkislögreglan að lýsa eftir stúlkunni með svokallaðri „Amber Alert“ en það er formleg neyðartilkynning sem send er eins víða og mögulegt er og með öllum mögulegum leiðum, þegar börnum er rænt í Bandaríkjunum. Kerfið er nefnt eftir Amber Rene Hagerman sem var einmitt níu ára gömul þegar henni var rænt og í kjölfarið myrt, árið 1996.

Þegar Charlotte Sena sást síðast var hún klædd í appelsínugulan Pokémon-bol, dökkbláar buxur, svarta Crocs-skó og var með gráan reiðhjólahjálm á höfðinu.

Áhyggjur lögreglu og fjölskyldu Charlotte af afdrifum hennar fara sívaxandi. Finnist barn sem rænt hefur verið ekki innan 24-48 klukkustunda fara líkurnar á því að það finnist yfirhöfuð hratt minnkandi.

Frænka Charlotte, Jené Sena, segir að allar vísbendingar og ábendingar skipti máli. Litla frænka hennar sé afar ljúf og yndisleg stúlka.

Charlotte sást síðast klukkan 18:15 að staðartíma á laugardagskvöldið. Hún var þá að hjóla á einum af hjólastígum garðsins ásamt vinum sínum en vildi hjóla einn hring á stígnum ein og sér. Hálftíma síðar tilkynnti móðir hennar yfirvöldum að Charlotte væri horfin eftir að hjólið hennar fannst á stígnum Charlotte var hvergi sjáanleg.

Fjölskyldan segir í yfirlýsingu til fjölmiðla að þau vilji ekkert nema að Charlotte snúi aftur til þeirra heil á húfi. Hún biður alla sem hafa einhverjar upplýsingar, sama hversu lítilvægar viðkomandi telji þær vera, að hafa samband.

Leitin erfiðari en í borg

Moreau Lake State Park er rúmlega 18,6 ferkílómetrar að stærð og þar er að finna þétta skóga og bratta og grýtta fjallahryggi.

Öll tæki sem til staðar eru á svæðinu hafa verið nýtt við leitina eins og til dæmis þyrlur, hitamyndavélar og sérstök tæki til að lesa bílnúmer. Talsmaður ríkislögreglunnar segir hins vegar að ef stúlkunni hefði verið rænt í New York borg eða Albany, höfuðborg New York ríkis, hefði meiri tækjabúnaður verið til staðar sem nýst hefði við leitina.

Leitin í garðinum og nágrenni hans mun halda áfram. Yfir 100 manns taka þátt og eru þyrluflugmenn og kafarar meðal þeirra. Leitarhundar og drónar eru einnig nýttir.

Talsmaður ríkislögreglu New York segir að leitað verði í hverjum krók og kima á svæðinu og hann ítrekar beiðni til þeirra sem kunna að búa yfir upplýsingum um hvarf Charlotte að hafa samband við embættið eða aðrar löggæslustofnanir.

Moreau Lake State Park verður lokaður almenningi þar til annað verður tilkynnt.

Uppfært kl. 23:45

Ríkislögregla New York tilkynnti fyrir örfáum mínútum að Charlotte Sena hafi fundist heil á húfi. Einstaklingur sem grunaður er um að hafa rænt henni hefur verið handtekinn og færður í varðhald.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Vara við sjúkdómi sem hefur smitað níu og drepið átta á skömmum tíma

Vara við sjúkdómi sem hefur smitað níu og drepið átta á skömmum tíma
Pressan
Fyrir 2 dögum

Gera grín að konunni sem taldi sig vera í ástarsambandi með Brad Pitt

Gera grín að konunni sem taldi sig vera í ástarsambandi með Brad Pitt
Pressan
Fyrir 3 dögum

Vaxandi áhyggjur af að skjöl varðandi Elísabetu II verði ritskoðuð

Vaxandi áhyggjur af að skjöl varðandi Elísabetu II verði ritskoðuð
Pressan
Fyrir 4 dögum

Datt í lukkupottinn þegar hann gramsaði í ruslatunnunni sinni

Datt í lukkupottinn þegar hann gramsaði í ruslatunnunni sinni
Pressan
Fyrir 4 dögum

Sænski herinn og Saab afhjúpa leynilegt verkefni

Sænski herinn og Saab afhjúpa leynilegt verkefni