Epstein fannst látinn í fangaklefa í fangelsi á Manhattan í ágúst 2019 en hann hafði þá verið ákærður fyrir mansal og vændissölu.
Maxwell kom nýlega fram í sjónvarpsþættinum „Talk TV‘s Jeremy Kyle Live: Ghislaine Behind Bards. Þar ræddi hún um mál Epstein og sagðist telja að hann hafi verið myrtur í fangelsinu. Yfirvöld komust að þeirri niðurstöðu að hann hefði framið sjálfsvíg.
Maxwell og Epstein höfðu þekkst lengi og verið par. Hún sagðist hafa verið þess fullviss að Epstein myndi áfrýja dómnum og að hann hefði notið verndar gegn saksókn vegna fyrri samnings hans við ákæruvaldið en sjálf hafi hún ekki verið nefnd í þeim samningi.
„Í hreinskilni sagt þá vildi ég óska að ég hefði aldrei hitt hann. Þegar ég horfi til baka, þá óska ég þess líklega að ég hefði haldið mig á Englandi.“
Maxwell, sem er dóttir Robert Maxwell fjölmiðlamógúls, sagðist ekki hafa vitað að Epstein væri svona „hræðilegur“ en núna sjái hún það þegar hún horfir til baka.
Maxwell sagðist telja að myndin fræga af Andrew prins og Virginia Giuffre sé fölsuð. Hún er sögð hafa verið tekin heima hjá Maxwell í Lundúnum. Á henni sést Andrew standa með handlegginn utan um Giuffre. Hún heldur því fram að hann hafi beitt hana kynferðislegu ofbeldi þegar hún var barn að aldri. Andrew gerði sátt við Giuffre fyrir nokkru þar sem hann féllst á að greiða henni bætur vegna málsins en hann játaði ekki sekt með sáttinni. Sky News skýrir frá þessu.