The Telegraph hefur eftir Dr Choi Jinwook, norðurkóreskum fræðimanni sem býr í Seoul í Suður-Kóreu, að einræðisherrann sé „einmana“. „Ég hef heyrt að hann gráti mikið og drekki mikið. Hann er einmana og undir álagi,“ sagði hann.
The Telegraph segir að einræðisherrann hafi verið beðinn um að hreyfa sig meira og láta af óhollum lífsháttum og hafi bæði eiginkona hans og læknar beðið hann um þetta.
Sumir sérfræðingar telja það vera merki um að hann glími við heilbrigðisvandamál að hann sést lítið opinberlega þessar vikurnar. „Honum finnst hann örugglega dauðlegri núna en fyrir þremur árum og hann var líklega með COVID-19 fyrr á árinu,“ sagði Peter Ward, sérfræðingur í málefnum Norður-Kóreu og doktor við Kookmin háskólann í Seoul.