Það var í október 2017 sem úsbekski ríkisborgarinn Sayfullo Saipov ók bílaleigubíl, pallbíl, eftir fjölförnum hjólastíg á Manhattan. Átta létust og tólf slösuðust að sögn New York Times.
Á mánudaginn hófust réttarhöld yfir Saipov.
Af þeim átta sem létust, þá voru fimm argentínskir ferðamenn og einn frá Belgíu. Hin tvö fórnarlömbin voru Bandaríkjamenn. Meðal þeirra sem slösuðust er barn sem hlaut heilaskaða þegar Saipov ók á skólabíl.
Á fyrsta degi réttarhaldanna sagði verjandi hans að Saipov hafi talið árásina réttlætanlega og að hann myndi deyja píslarvættadauða.
Saksóknari sagði að hann hefði framið hryðjuverkið til að verða hluti af hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við Íslamska ríkið.
Ef Saipov verður sakfelldur á hann dauðadóm yfir höfði sér.