fbpx
Laugardagur 10.ágúst 2024
Pressan

Dómari varaði viðstadda við ólýsanlegum myrkraverkum krókódílasérfræðings – „Ég get ekki hætt. Ég vil það heldur ekki“

Pressan
Þriðjudaginn 26. september 2023 22:00

Adam Britton var dæmdur fyrir viðurstyggileg brot sín

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dómari í sakamáli sem rekið var fyrir áströlskum dómstólum á mánudaginn taldi nauðsynlegt að vara alla viðstadda við þeim málavöxtum sem gera átti grein fyrir þann daginn. Um væri að ræða svo ógeðfelld brot að þau væru til þess fallandi að valda taugaáfalli. Gafst því öllum viðstöddum, þar á meðal starfsmönnum réttarins, kostur á að yfirgefa salinn áður en brot krókódílasérfræðingsins Adam Britton voru tíunduð.

„Staðreyndir málsins innihalda efni sem er aðeins hægt að lýsa sem afbrigðilegri og siðlausri grimmd sem er erfitt að horfast í augu við, vekur óhug, og að mínu mati er til þess fallið að valda taugaáfalli,“ sagði dómari og bætti við að það væri undir hverjum og einum komið hvort hann treysti sér til þess að heyra lýsingarnar, en fólk hefði verið varað við.

Ólýsanleg brot

Adam Britton er 51 árs virtur dýrafræðingur frá Bretlandi. Helst er hann þekktur fyrir vinnu sína og sérfræðikunnáttu um krókódíla. Hann starfaði við rannsóknir hjá Charles Darwin háskólanum og hefur einnig unnið fyrir miðlana BBC og National Geographic. Hann tók einu sinni á móti hinum virta David Attenborough sem var að vinna að einni heimildarmynd sinni og fékk að taka upp á landareign Britton.

Það var svo á síðasta ári sem að dýraverndarsamtökin NT Animal Welfare fengu send ógeðfelld myndbrot. Samtökin höfðu umsvifalaust samband við lögreglu og var Britton í kjölfarið handtekinn og lagði lögregla hald á tölvur og önnur raftæki sem fundust á heimili hans. Rétt er að geta þess að fjölmiðlar sem og fleiri hafa ekki treyst sér til að greina frá því hvað mátti finna á þessum myndböndum, þar sem um sé að ræða svo viðbjóðsleg brot að það þoli ekki birtingu, annað en að þar var um að ræða hrottalegt dýraníð þar sem Britton sást misnota hunda og hvolpa kynferðislega, pynta dýrin og drepa.

Brotin beindust gegn hans eigin hundum, sem og hundum annarra sem hann hafði með sviksamlegum hætti fengið í sínar hendur með því að þykjast ætla að búa þeim gott heimili. Nýtti hann sér vefsíður þar sem dýraeigendur í neyð leituðu að tímabundnu og varanlegu fóstri fyrir dýr sín, ýmist sökum húsnæðishrakninga, ferðalaga eða breyttra aðstæðna. Í einhverjum tilvikum var fólk hreinlega að leita að góðum heimilum fyrir hvolpa. Britton hafði samband við þessa dýraeigendur og þóttist ætla að bjóða hundunum gott atlæti.

Í einu tilvikinu sem greint var frá hafði hann fengið tíkina Wolfe til sín, en fyrrum eigendur vildu þó fá að fylgjast með afdrifum hennar og hvernig hún væri að aðlagast breyttum aðstæðum.

„Wolfe er slök, borðar vel og hefur það gott á nýju heimili,“ sagði Britton við fyrri eigendur og sýndi þeim mynd af tíkinni. Þeim óafvitandi hafði Britton þá þegar kynferðislega misnotað tíkina, pyntað hana og svo drepið.

Upphaflega átti ekki að nafngreina krókódílasérfræðingin þar sem hryllilegt eðli brota hans var talið geta haft áhrif á kviðdóm fyrirfram. Britton gekkst hins vegar greiðlega við þeim 60 ákæruliðum sem á hann voru bornir og því ekkert til fyrirstöðu nafngreiningar. Britton var handtekinn í apríl á síðasta ári og hefur síðan þá verið látinn sæta gæsluvarðhaldi, en þar mun hann áfram sitja þar til refsing verður uppkveðin í málinu þann 13. desember.

Fyrir dómi var greint frá því að brot Britton mætti rekja að minnsta kosti aftur til ársins 2014, þegar hann hóf að taka myndskeið af sjálfum sér að brjóta gegn sínum eigin hundum, Ursu og Bolt. Eftir það sneri hann sér að gæludýrum annarra og allt í allt er hann talinn hafa brotið gegn 42 hundum, ýmist fullvöxnum eða hvolpum, og af þeim drap hann minnst 39.

Gat ekki hætt

Hann átti svo í samskiptum við aðra dýraníðinga í gegnum samfélagsmiðla. Í samræðum sem hann átti á Telegram kallaði hann hundana kynlífsleikföng og sagðist lengi hafa barist við kenndir sínar.

„Ég hafði bælt þetta niður. Undanfarin ár hleypti ég þessu út aftur og nú get ég ekki hætt. Ég vil það heldur ekki.“

Saksóknari í málinu rakti að Britton hefði afbrigðilegan, kvalafullan og kynferðislegan áhuga á dýrum. Til að stunda glæpi sína hafði hann komið gám fyrir í bakgarði sínum sem væri ekki hægt að kalla annað en pyntingarherbergi. Þar hafi hann komið fyrir upptökubúnaði svo hann gæti tekið brotin upp og sent þau til annarra aðila með afbrigðilegar kenndir, stundum í skiptum fyrir annað níðingsefni á borð við barnaníð.

Britton deildi heimili með eiginkonu sinni Erin, sem var jafnframt viðskiptafélagi hans. Saman veittu þau ráðgjöf um verndun villtra dýra, þá einkum krókódíla, en hún hefur einnig unnið við náttúrulífsrannsóknir og heimildamyndagerð. Ekki er talið að Erin hafi vitað um myrkraverk eiginmannsins.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Tölvuþrjótar fengu 10,4 milljarða greidda fyrir gögn sem þeir læstu

Tölvuþrjótar fengu 10,4 milljarða greidda fyrir gögn sem þeir læstu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Djarfmælti og hispurslausi „Túrtappa Tim“ kemur af krafti inn í baráttuna – Svona reynir hægrið að tæta hann í sig

Djarfmælti og hispurslausi „Túrtappa Tim“ kemur af krafti inn í baráttuna – Svona reynir hægrið að tæta hann í sig
Pressan
Fyrir 3 dögum

Skelfileg sjón blasti við á útfararstofunni – Hjónin í slæmum málum

Skelfileg sjón blasti við á útfararstofunni – Hjónin í slæmum málum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Vilja meiri skóg til að halda aftur af loftslagsbreytingunum – Það er bara eitt stórt vandamál

Vilja meiri skóg til að halda aftur af loftslagsbreytingunum – Það er bara eitt stórt vandamál