Síðastliðna nótt lést 46 ára gamall karlmaður, í Esbjerg í Danmörku, af völdum áverka sem hann hlaut í kjölfar reiðhjólaslyss.
Samkvæmt upplýsingum frá vitnum og lögreglunni á svæðinu var maðurinn að hjóla á rafhjóli, síðdegis í gær. Þegar hann hjólaði yfir gangstéttarbrún vildi ekki betur til en svo að framdekkið losnaði af hjólinu. Maðurinn missti þá stjórn á því og endaði á næstu gatnamótum þar sem hann fékk þungt högg á höfuðið.
Vitni að atvikinu hringdu á sjúkrabíl. Áður en hann kom á vettvang sýndi maðurinn af sér árásargirni og óviðurkvæmilega hegðun í garð vitnanna. Lét hann sig í kjölfarið hverfa af vettvangi.
Næst sást maðurinn tæpann kílómetra frá slysstaðnum. Enn var hegðun hans árásargjörn og aftur var hringt á sjúkrabíl. Hins vegar fylgir ekki sögunni hvort að mannsins hafi verið leitað eftir að hann var farinn áður en fyrri sjúkrabíllinn kom á staðinn þar sem hann varð fyrir höfuðhögginu.
Í seinna skiptið beið maðurinn eftir sjúkrabílnum en við skoðun bráðaliða virtist hann ekki vera slasaður. Í kjölfarið var hann handtekinn fyrir óspektir á almannafæri og fluttur á næstu lögreglustöð.
Á lögreglustöðinni var hann skoðaður af lækni en eftir þá skoðun var hann lagður inn á sjúkrahúsið í Esbjerg. Þar lést hann af völdum stórfelldrar heilablæðingar sem rakin hefur verið til reiðhjólaslyssins.
Það var Ekstrabladet sem greindi frá.