Tölvuforritarinn Richard Cottingham hélt íbúum New York borgar í heljargreipum í áratug undir lok áttunda áratugarins, án þess þó að íbúar eða lögregluyfirvöld áttuðu sig á að fjöldamorðingi var að verki fyrr en árum og áratugum síðar. Mál Cottingham er tekið fyrir í sérstökum tveggja tíma þætti af People Magazine Investigates, en þátturinn nefnist The Times Square Killer. Cottingham er talinn einn afkastamesti raðmorðingi Bandaríkjanna og enn í dag, þremur áratugum eftir að hann var dæmdur fyrst, eru fjölskyldur loksins að fá vitneskju um hver myrti ástvin þeirra.
Cottingham, var dæmdur fyrir fimm hrottafengin morð í New York og New Jersey og þrjár ofbeldisárásir á árunum 1977 til 1980 í þremur réttarhöldum sem lauk árið 1984. Hann lét sér ekki duga að myrða förnarlömb sín, heldur nauðgaði þeim og pyntaði, og sum þeirra limlesti hann með því að fjarlægja höfuð þeirra, hendur og brjóst. Cottingham fékk meðal annars viðurnefnin Times Square Killer, Torso Killer, og New York Ripper.
Þann 15. desember árið 1977 kom hin 26 ára gamla Maryann Carr heim úr vinnunni, hún starfaði sem röntgentæknir og var nýgift, fékk sér vínglas og fór í gegnum póstinn sinn. Þegar hún mætti ekki í kvöldmat til tengdamóður sinnar hringdi fjölskyldan áhyggjufull í lögreglunar.
„Íbúi í byggingunni tilkynnti okkur að um klukkan 19.45 hefði hún heyrt konu öskra í íbúð Carr: „Ég skal, ég skal,“ segir Alan Grieco, sem nú er kominn á eftirlaun, en starfaði sem lögreglustjóri hjá saksóknaraembættinu í Bergen-sýslu í New Jersey í þættinum.
Árla morguninn eftir fann lögreglan lík Carr í 5 kílómetra fjarlægð frá heimili hennar. Líkið lá við girðingu á bílastæði hótelsins Quality Inn. Carr hafi verið lamin hrottalega og kyrkt, mögulega með hálsmeni hennar. Einnig leit út fyrir að úlnliðir hennar og ökklar hefðu verið handjárnaðir og límleifar sem fundust á vörum hennar bentu til þess að munnur hennar hefði verið teipaður. Morðið á Carr var óupplýst til ársins 1980, sem og morðið á hinni 19 ára gömlu Valerie Ann Street, sem fannst myrt það ár á hótelinu, en hún starfaði sem kynlífsstarfsmaður.
Það voru öskur 18 ára gamallar stúlku sem urðu til þess að starfsfólk hótelsins hringdi í lögregluna þann 22. maí 1980. Cottingham hafði ráðið stúlkuna sem kynlífsstarfsmann og var byrjaður að pynta hana með hnífi þegar lögreglan kom á vettvang og handtók hann með vopnavaldi á gangi hótelsins. Stúlkan komst lífs af og hlaut Cottingham dóm fyrir árásina á hana árið 1981 auk tveggja annarra líkamsárása.
Fljótlega fór rannsakendur að gruna að Cottingham, sem starfaði sem tölvuforritari hjá tryggingafélagi, væri ábyrgur fyrir morðunum á Carr og Street, auk þriggja annarra morða á tveimur Manhattan hótelum sem framin höfðu verið síðustu sjö mánuðina á undan. Í einu tilvikinu var um að ræða tvær kynlífsstarfskonur, sem Cottingham hafði haldið í nokkra daga á hótelherbergi, þar sem hann nauðgaði þeim, pyntaði og limlesti, en hótelstarfsmenn fundu brunnin lík kvennanna í rúmum herbergisins.
„Þessi maður er skrímsli sem elskar að vera við stjórnvölinn,“ segir Alan Grieco í þættinum. „Fjöldi þeirra kvenna sem hann myrti og réðst á er að líkindum sá mesti allra raðmorðingja.“
Cottingham hélt fram sakleysi sínu við réttarhöldin og sagðist vera hafður fyrir rangri sök. Árið 2009 viðurkenndi hann þó að hafa myrt konurnar fimm sem hann hlaut dóm fyrir.
Þann 3. maí árið 1970 giftist Cottingham og eignaðist hann tvo syni og dóttur með eiginkonu sinni. Í apríl árið 1978 óskaði eiginkonan eftir skilnaði á grundvelli þess að eiginmaður hennar sýndi henni andlegt ofbeldi, væri löngum fjarverandi frá heimilinu og sæi henni ekki fyrir nægu fé til að sjá um rekstur heimilisins. Hún dró þó kröfu um skilnað tilbaka í maí árið 1980, en gekk frá lögskilnaði eftir að hann var dæmdur árið 1981 fyrir líkamsárásirnar þrjár.
Árið 2000 fékk Robert Anzilotti, rannsakandi við saksóknaraembættið í Bergen sýslu, það verkefni að fara yfir ólokin morðmál (e. Cold Case) frá sjöunda og áttunda áratugnum. Taldi hann, líkt og aðrir rannsakendur á undan honum og með tilliti til sögu Cottingham, að hann bæri ábyrgð á fleiri morðum. Árið 2003 fór Anzilotti að heimsækja Cottingham reglulega í fangelsið og yfirheyra hann. Heimsóknirnar fóru að skila árangri árið 2010 þegar Cottingham byrjaði að játa, oft í skiptum fyrir friðhelgi, meira en tug óupplýstra morða. Það fyrsta sem hann játaði í þessum heimsóknum var óleyst mál frá árinu 1967. Árið 2014 játaði hann að hafa myrt þrjár unglingsstúlkur á árunum 1968-1969.
Fjölskyldur fórnarlamba Cottingham samþykktu að málunum yrði lokað án þess að Cottingham yrði ákærður og dæmdur fyrir morðin, og játningar hans voru ekki gerðar opinberar allt í því skyni að fá hann til að tala meira og játa fleiri glæpi. Í apríl 2021 játaði hann á sig tvö morð sem hann framdi árið 1974 og í mars í ár játaði hann morð á 17 ára stúlku sem hvarf í janúar árið 1967. Árið 2022 játaði hann að hafa framið sex morð á árunum 1968 til 1973. Eitt þeirra, morðið á Diane Cusick árið 1968 er talið elsta morðmálið sem leyst hefur verið með DNA sýni.
Dóttir hennar, Darlene Altman, 59 ára, er ein fjölmargra sem hafa nú fengið svar við spurningunni um hver myrti ástvin þeirra og lokun í viðkomandi máli. Altman var þriggja ára árið 1968 þegar lík móður hennar, Cusick sem var 23 ára og starfaði sem danskennari, fannst í aftursæti bíls hennar í verslunarmiðstöð nálægt heimili hennar. Henni hafði verið nauðgað, hún barin og kyrkt.
„Ég hafði nokkurn veginn gefið upp vonina um að fá einhver svör,“ segir Altman, sem eftir að hún komst til fullorðinsára hringdi á hverju ári í lögregluna á afmælisdegi móður sinnar, örvæntingarfull í leit að svörum. „Núna bið ég á hverjum degi að lögreglan fái hann til að segja meira svo aðrar fjölskyldur geti fengið einhver svör. Það mun þó ekki færa þeim ástvini þeirra aftur.“
Konurnar sem Cottingha myrti voru á aldrinum 13 til 33 ára en á meðal þeirra sem hann hefur játað morðið á eru
Á árunum sem Cottingham myrti konur víða um borgina, og lögreglan hafði ekki hugmynd um að þar væri fjöldamorðingi að verki, var hann handtekinn nokkrum sinnum fyrir smærri glæpi. Í byrjun október árið 1969 var hann tekinn ölvaður undir stýri og sektaður, í ágúst árið 1972 var hann sektaður fyrir búðarþjófanð og ári síðar var hann handtekinn fyrir rán og kynferðislega áreitni eftir að vændiskona og sá sem seldi hana út kærðu Cottingham. Ekkert þeirra mætti þó við þingfestingu málsins og var það látinn niður falla. Sama varð upp á teningnum í mars árið 1974 þegar Cottingham var kærður fyrir svipaðar sakir en hvorki hann né kærandinn mættu fyrir dóm.
Cottingham er í dag orðinn 76 ára gamall, kominn í hjólastól og eyðir flestum dögum sínum á sjúkrahúsi í South Woods fylkisfangelsinu í New Jersey þar sem hann afplánar marga lífstíðardóma fyrir glæpi sína. Hann var eins og áður sagði upphaflega dæmdur fyrir fimm morð, en við síðari játningar hans er tala fórnarlamba hans orðin 18. Rannsóknarlögreglumenn telja hann bera ábyrgð á mun fleiri morðum, enda hefur Cottingham stært sig af því að hafa myrt á milli 80 og 100 konur.
„Hann er geðsjúklingur og kynferðislegur sadisti sem hefur enga iðrun sýnt,“ segir Vernon J. Geberth, yfirmaður lögreglunnar sem nú er kominn á eftirlaun. „Sumt fólk trúir ekki á hið illa, en ég geri það. Og Cottingham er vondur. Hann er djöfull sem kom til jarðar.“
Árið 2021 kom út heimildarþáttaröð á Netflix um Cottingham og voðaverk hans, þættirnir eru þrír og bera heitið Crime Scene: The Times Square Killer.