Myndband af yfirheyrslu yfir ástralanum Martin Bryant frá árinu 1996 hefur vakið athygli að nýju eftir að það birt var á samfélagsmiðlum.
Dagana 28. og 29. apríl árið 1996 myrti hinn 28 ára gamli Bryant 35 manns á aldrinum þriggja til 72 ára og særði 23 til viðbótar í skotárás í Port Arthur í Tasmaníu. Port Arthur er ferðamannabær og þekkti Bryant tvö fórnarlömb sín, hjón sem voru eigendur gistiheimilisins Seascape, sem hann myrti þar en þau voru fyrst til að liggja í valnum.
Meirihluta fórnarlamba sinna drap hann á Port Arthur Historic Site, vinsælum ferðamannastað. Hóf hann skotárásina með tveimur hálfsjálfvirkum rifflum á litlu kaffihúsi áður en hann fór inn í gjafavöruverslun staðarins, drap hann tuttugu manns á skömmum tíma. Á bílastæði staðarins drap hann fleiri þar á meðal sjö börn. Bryant stal bifreið eftir að hafa myrt fjóra sem í henni voru og ók á nærliggjandi bensínstöð þar sem hann drap konu og tók mann hennar sem gísl. Hann skaut því næst á farartæki sem fóru fram hjá áður en hann fór aftur til Seascape með gísl sinn sem hann drap síðar. Bryant kveikti í gistiheimilinu, en hann var handtekinn morguninn eftir.
Skotárásin sem er sú mannskæðasta í sögu Ástralíu og ein sú mannskæðasta á okkar tímum er þekkt sem Port Arthur fjöldamorðin, en morðin urðu til þess að stjórnvöld í Ástralíu settu í gang umfangsmiklar aðgerðir varðandi skopvopnaeign.
Bryant lýsti yfir sakleysi sínum við upphaf réttarhalda 7. nóvember árið 1996, en skipaður verjandi hans hans ráðlagði honum að lýsa yfir sekt sinni. Tveimur vikum síðar var Bryant dæmdur til 35 lífstíðardóma og 1652 ára til viðbótar fyrir morðin án nokkurra möguleika á reynslulausn, og hefur hann setið í Risdon fangelsinu í Hobart alla tíð.
Í myndbandi sem tekið var við lögregluyfirheyrslu yfir Bryant árið 1996, sem var upphaflega sýnt í sjónvarpsþætti um morðin, má sjá hann svara spurningum lögreglumanns. Bryant gætir þó ekki að sér smá stund þegar hann telur að upptakan sé ekki lengur í gangi. Virðist hann glaður og hálfhlæjandi þegar hann játar verknaðinn á sig.
„Ég er viss um að þú munt finna manneskjuna sem gerði þetta,“ segir hann, bendir síðan á sjálfan sig og muldrar lágt „mig.“
„Mér finnst þetta alls ekki mjög fyndin fullyrðing, Martin, ef ég á að vera hreinskilinn,“ segir lögreglumaðurinn og svarar Bryant þá: „Þú hefðir þurft að ná þessu á upptöku.“
Lögreglumaðurinn segir þá: „Við erum enn að taka upp.“
@crimeobsessed666 #crimeobsessed #shooter #truecrime #crimetok ♬ original sound – MK
Í annarri klippu má sjá Bryant segja við lögreglumennina „ef að fólk gerði ekki svona óheppilega hluti þá væruð þið ekki með vinnu,“ og svarar lögreglumaðurinn „það er mikill sannleikur í því skal ég segja þér.“
@nowthatsstrange Martin Bryant #martinbryant #truecrime #truecrimetiktok #truecrimecommunity #austrialia #crime #criminal #police #nowthatsstrange #sick ♬ original sound – 🅝🅣🅢
Bryant hefur aldrei gefið upp ástæðu fyrir verknaði sínum, en hann var atvinnulaus og lýst sem einfara af þeim sem til hans þekktu. Tilgátur hafa verið um, meðal annars frá rannsakendum málsins, um að kveikjan hafi verið hefnd vegna kvartana í hans garð og önnur fórnarlömb hafi aðeins verið verið hliðarskaði. Paul Mullen, réttargeðlæknir sem kom að rannsókn fjöldamorðanna, sem og annarra í Nýja-Sjálandi segir að slík atvik geti haft eftirlíkingaráhrif í för með sér. Athygli og fjölmiðlaumfjöllun þar sem morðum er lýst í þaula geti virkað sem hvati fyrir vanvirka einstaklinga til að líkja eftir fyrri glæpum. Talið er að umfjöllun um fjöldamorðin í Dunblane í Skotlandi sem áttu sér stað mánuði fyrir Port Arthur fjöldamorðin, hafi verið kveikjan að verknaði Bryant.
Árið 2021 kom út heimildarmynd um Bryant og glæpi hans, þar er ekki aðeins fjallað um fjöldamorðin í Port Arthur, heldur rök færð fyrir því að Bryant hafi einnig drepið föður sinn og auðuga ástkonu sína. Í heimildamyndinni, 7News Spotlight: Martin Bryant’s Dark Secrets, segist rannsakandinn Denham Hitchcock, hafa rætt við ný vitni og fundið ný skjöl sem tengjast málinu, sem jafnvel bendi til þess að hægt hefði verið að koma í veg fyrir fjöldamorðin í Port Arthur hefðu lögregluyfirvöld brugðist fyrr við. Segir Hitchcock að hann hafi fundið sönnunargögn sem sanna að Bryant hafi myrt föður sinn Maurice, auk þess sem gögnin tengi Bryant við bílslys sem varð Helen Harvey, auðugri 54 ára konu, að bana í október árið 1992.
Bryant og Harvery kynntust árið 1987 þegar hann var 19 ára og hún 54 ára, fjórum árum síðar fluttu þau saman á lítinn bóndabæ sem hún hafði keypt. Í október árið 1992 lést Harvey og tveir hundar hennar þegar hún keyrði á bifreið sem kom úr öfugri átt. Bryant sem var farþegi í bifreiðinni slasaðist og var lagður inn á sjúkrahús. Málinu var lokað og talið að um slys hefði verið að ræða.
Eftir slysið flutti Maurice inn á bóndabæinn til að hlúa að syninum meðan hann væri að ná sér eftir slysið. Tveimur mánuðum síðar fannst Maurice látinn í stíflu nálægt heimilinu með lóð um hálsinn. Lögreglan taldi andlátið hafa borið að með óeðlilegum hætti en þó var málinu lokað með því að Maurice hefði tekið eigið líf. Bryant erfði lífeyrissjóð föður síns, sem var um 250 þúsund ástralskir dalir.
Umfjöllun dagblaða strax eftir fjöldamorðin vakti upp alvarlegar spurningar um vinnubrögð blaðamanna og gagnrýni beindist að áströlskum fjölmiðlum. Ljósmyndir af Bryant sem birtar voru í The Australian voru breyttar, en með stafrænum hætti voru augu hans látin líta út fyrir að vera gljáandi og hann látinn líta út fyrir að vera „brjálaður.“ Þrátt fyrir gagnrýnina voru myndirnar notaðar áfram í fjölmiðlum í mörg ár á eftir. Jafnframt var spurt hvernig myndirnar hefðu borist til fjölmiðla.
Ríkissaksóknari í Tasmaníu varaði fjölmiðla við því að umfjöllunin gengi gegn rétti Bryant til sanngjarnrar málsmeðferðar og kröfur voru gefnar út á hendur The Australian, Hobart Mercury (sem notaði mynd Bryants undir fyrirsögninni „Þetta er maðurinn“), The Age og ABC. Formaður ástralska fjölmiðlaráðsins á þeim tíma hélt því fram að þar sem áströlsk dagblöð hunsuðu reglulega tilmæli dómstóla væri einsýnt að breyta þyrfti lögum ekki fjölmiðlum. Áströlsk dagblöð sættu einnig gagnrýni vegna frásagna þeirra af Bryant og hvernig skilja ætti gjörðir einstaklings sem bæri ábyrgð á slíkum voðaverkum.
Líkt og oft er með atvik af þessu tagi hefur verið fjallað um fjöldamorðin í menningu. Í mars 2012 vann listamaðurinn Rodney Pople Glover verðlaunin fyrir landslagsmálverk sitt sem sýnir Port Arthur með Bryant í forgrunni með skotvopn.
Árið 2019 var vísað til fjöldamorðanna í texta hljómsveitarinnar Pond, The Boys Are Killing Me. Kvikmyndin Nitram sem kom út árið 2021, leikstýrð af Justin Kurzel, er byggð á lífi Bryants með Caleb Landry Jones í aðalhlutverki. Jones vann verðlaun sem besti leikarinn fyrir hlutverkið á kvikmyndahátíðinni í Cannes.