fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Pressan

Einsetumaður, hlaupari og fyrrverandi áhættuleikari vingast við birni

Jakob Snævar Ólafsson
Mánudaginn 4. september 2023 22:00

Skjáskot Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir nokkrum mánuðum kom út bókin Outsider: An Old Man, a Mountain and the Search for a Hidden Past eftir kanadíska blaðamanninn Brett Popplewell. Bókin fjallar um hinn norsk-kanadíska Dag Aabye (hans rétta nafn er Dag Øby en hann er alltaf kallaður Aabye) sem er 82 ára gamall og býr einn, í rútu, í skógi í Bresku Kólumbíu í vesturhluta Kanada. Aabye hefur lifað viðburðaríku lífi. Hann var einn af fyrstu mönnunum í heiminum til að leggja stund á áhættusama háfjallaskíðamennsku (e. extreme skiing), hann vann sem áhættuleikari í Hollywood, skógarhöggsmaður og keppti í  meðal annarsmaraþonhlaupum sem voru lengri en hinir hefðbundnu 42 kílómetrar. 

Aabye hleypur ennþá í 2 til 6 klukkutíma daga og á í góðu sambandi við birnina í skóginum þar sem hann býr. Hann segir birnina þekkja sig og að birnir séu ekki morðingjar sem drepi alla sem þeir sjá heldur séu þeir einfaldlega að verja sig og þann mat sem þeir hafi safnað að sér. Aabye segir að hann geti ekki lifað í skóginum án þess að eiga í góðu sambandi við birnina.

Í ljósi búsetu hans þykir ansi erfitt að ná sambandi við Aabye og hann hefur stundum verið hikandi við að veita viðtöl en Popplewell náði að sannfæra hann um að markmiðið væri aðeins að segja hina mjög svo athyglisverðu sögu hans.

Aabye segist bara sofa í rútunni en annars dvelji hann úti við. Hann vaknar klukkan rúmlega 4:30 á morgnana og fer þá að hlaupa í rúma tvo tíma. Þegar hann kemur aftur heggur hann sér eldivið og fer svo aftur að hlaupa en hægar í það skipti. Hann segist vera að byggja sér hjólhýsi og að hann hafi séð til þess að hann muni hafa nóg að gera þótt hann nái 120 ára aldri.

Aabye segist hlaupa ekki bara til að þjálfa fæturna heldur einnig hjartað og lungun. Svæðið sem hann hleypur á er oft erfitt yfirferðar. Hann segist aldrei hafa orðið veikur.

Aabye tekur þó fram að hann hlaupi ekki bókstaflega allt sem hann fer. Hann hleypur reglulega til næsta bæjar til að versla, en hann á rétt á ellilífeyri og nýtir hann fyrst og fremst til matarinnkaupa, og tekur þá yfirleitt leigubíl til baka heim í skóginn. Hann segir að hlaup séu eins og dans. Þetta tvennt sé lífið sjálft.

Fæddur í hernumdu landi

Aabye fæddist í Sigdal í Noregi árið 1941 á meðan landið var hernumið af þýskum nasistum.

Hann var sonur norskrar móður, sem eftir því sem best er vitað lést í bílslysi, og þýsks hermanns en var hins vegar ættleiddur af annarri fjölskyldu. Erfitt hefur reynst að finna upplýsingar um blóðforeldra hans. Aabye segist hins vegar ekki hafa tíma til að velta slíku fyrir sér því hann hafi nóg að gera á hverjum degi

Á sjöunda áratugnum flutti hann til Bretlands. Hann hafði þá þegar náð talsverðri færni á skíðum og starfaði sem skíðakennari. Hann starfaði einnig sem áhættuleikari í ýmsum kvikmyndum m.a. James Bond myndinni Goldfinger sem var frumsýnd árið 1964. Nokkrum misserum síðar var hann ráðinn til starfa sem skíðakennari á skíðasvæðinu við fjallið Whistler í Bresku Kólumbíu í Kanada og hann hefur búið í landinu síðan. Aabye var einnig ráðinn til að gera ýmsar áhættusamar kúnstir á skíðum, sem lítt höfðu sést áður, sem átti að stuðla að því að laða fólk að skíðasvæðinu.

Meðal annars skíðaði hann úr meiri hæð í fjallinu en venjan var, skíðaði niður mannvirki og fór í heljarstökk á skíðum af skíðastökkspalli. Honum hélt áfram að bregða fyrir í fleiri kvikmyndum þar sem hann nýtti færni sína á skíðum óspart.

Hann gerði hluti á skíðum sem fáir höfðu séð og var oft kallaður faðir skíðaiðkunar með frjálsri aðferð (e. freestyle skiiing). Enginn hafði til að mynda stokkið úr þyrlu á skíðum þar til hann gerði það á þessum árum.

Fór eins langt og hann komst í hlaupum

Þegar kom fram á áttunda áratuginn og fertugsaldurinn fór Dag Aabye að leggja stund á hlaup og hefur haldið því áfram síðan. Hann fór fljótlega að keppa í maraþonhlaupum en gleymdi ekki skíðunum alveg og fór þegar hann var farinn að nálgast miðjan aldur að keppa í skíðagöngu.

Hann fór um svipað leyti að snúa sér að ennþá lengri hlaupum en maraþoni. Árið 2003 þegar hann var 62 ára tók hann þátt í Kanadíska dauðahlaupinu (e. Canadian Death Race) í fyrsta sinn. Dauðahlaupið er árlegt 125 kílómetra langt hlaup í óbyggðum Albertafylkis í Kanada. Hlaupið þykir einstaklega erfitt, einnig fyrir reynda hlaupara, og ekki er óalgengt að keppendur meðal annars kasti upp, sjái ofsjónir, verði fyrir ofkælingu og að líkami þeirra einfaldlega.

Keppendur þurfa að klára hlaupið á í mesta lagi 24 klukkustundum og Aabye, sem keppti á hverju ári og var venjulega elsti keppandinn, náði því í hvert skipti fram til 2009. Eftir það náði hann ekki að klára hlaupið á hámarkstímanum en náði alltaf að klára fyrsta hluta þess, 49 kílómetra, undir hámarkstímanum sem er 9 og hálf klukkustund.

Hann keppti síðast í Dauðahlaupinu árið 2016 þegar hann var 75 ára gamall.

Einsetumaður einu sinni

Aabye tók upp líf einsetumanns í skógi undir lok síðustu aldar eftir skilnað við eiginkonu sína, sem hann eignaðist 4 börn með, en þá hafði hann ekki efni á að koma sér upp nýju heimili. Vinir hans keyptu rútuna sem hann sefur í af manni sem hafði verið að nota hana til að ferðast þvert yfir Kanada.

Aðspurður um hvers vegna hann kjósi að lifa sem einsetumaður segir Aabye að honum þyki vænt um fólk en vilji ekki of mikla truflun eða afskipti af sínu lífi. Þess vegna eigi hann t.d. ekki farsíma og lifi án rafmagns og vatnsveitu en hann er með viðarofn. Fólki fjölgi stöðugt og það sé farið að láta sjá sig í skóginum. Þess vegna hafi hann búið sér til sína eigin stíga og vegaslóða sem geri honum kleift að hlaupa og ganga án þess að verða fyrir ónæði.

Það sé þó nauðsynlegt að eiga stundum samskipti við fólk. Hann fari alltaf til næsta bæjar að kaupa mat og finnist gaman að nýta þá tækifærið til að spjalla við fólk.

Hann segir að það að lifa í svo mikilli nálægð við náttúruna haldi honum hraustum. Aabye segir að hann vilji ekki láta segja sér að hann sé gamall og honum líði ekki eins og hann sé það. Það sé of mikið um það í nútíma þjóðfélögum að fólki sem komið sé á miðjan aldur, eða á sama aldur og hann er á, sé sagt að það verði að hægja á sér. Þótt hann sé orðinn 82 ára þá hafi hann ekkert hægt á sér. Eitt það versta sem hægt sé að gera fólki sé að segja því að hægja á sér.

Dag Aabye segist vilja deyja við að lifa lífinu lifandi en ekki fastur í herbergi. Það sé ekkert aldursskeið þar sem lífið sé búið.

Einkum byggt á hlaðvarpinu The Current.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Forsætisráðherra Kanada stígur til hliðar

Forsætisráðherra Kanada stígur til hliðar
Pressan
Fyrir 5 dögum

Lýsir sorglegri sögu mannsins í Teslunni – Sá hluti sem höfðu mikil áhrif á hann

Lýsir sorglegri sögu mannsins í Teslunni – Sá hluti sem höfðu mikil áhrif á hann