fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Pressan

Tíu barna móðir hvarf – Flestum virtist vera sama

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 2. september 2023 22:00

Jean McConville ásamt þremur af tíu börnum sínum/ Skjáskot

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Klukkan sjö að kvöldi, í byrjun desember árið 1972, var bankað á dyr íbúðar McConville-fjölskyldunnar í Divis-fjölbýlishúsinu í Belfast á Norður-Írlandi. Fyrir utan voru nokkrir einstaklingar sem spurðu eftir húsmóðurinni á heimilinu, Jean McConville.

Þegar Jean birtist var henni sagt að fara í kápu og fylgja hópnum. Börnum Jean var tjáð að móðir þeirra myndi snúa aftur heim eftir tæpan hálftíma. Það var hins vegar ekki staðið við það og börnin sáu móður sína aldrei aftur á lífi.

Nokkrir dagar liðu en enginn kom til að líta eftir börnunum og engin rannsókn var hafin á hvarfi Jean. Enginn, nema börn hennar, virtist vilja vita hvað varð um hana.

Um þessar mundir geisuðu vopnuð átök um framtíð Norður-Írlands sem kölluð voru „The Troubles“. Þessum átökum má, í sem einfaldastri mynd, lýsa þannig að þar hafi barist á banaspjót mótmælendur sem vildu að Norður-Írland yrði áfram hluti af Bretlandi og kaþólikkar sem vildu sameinast Lýðveldinu Írlandi.

Jean var fædd í maí 1934 og var því 38 ára þegar hún hvarf. Hún var fædd og uppalinn í Murray-fjölskyldunni sem voru mótmælendur. Fjölskyldan hafði ekki mikið á milli handanna og Jean hætti snemma í skóla og fór út á vinnumarkaðinn. Hún fékk vinnu sem þjónustustúlka á heimili kaþólskrar ekkju, Mary McConville. Jean og Arthur sonur Mary felldu hugi saman. Arthur var kaþólskur eins og móðir sín og hafði gegnt herþjónustu í breska hernum. Hann var 12 árum eldri en Jean. Þau enduðu á því að gifta sig árið 1952.

Víðast hvar illa tekið

Hjónin bjuggu fyrst í herstöð á Englandi. Jean tók bæði upp nafn eiginmanns síns og kaþólska trú. Þau fluttu til Belfast 1957 og eignuðust alls 14 börn en 4 þeirra létust skömmu eftir fæðingu. Eftir lifðu 10 börn. Arthur hætti loks í hernum 1964.

Fjölskyldan bjó framan af í hverfi mótmælenda en þegar ófriðarbálið kviknaði á Norður-Írlandi undir lok sjöunda áratugarins var hún hrakin burt með hótunum og ógnunum. Henni var þó heldur ekki vel tekið af mörgum kaþólikkum þegar fréttist að Jean væri alin upp í fjölskyldu mótmælenda. Fjölskyldan var um tíma á hrakhólum en borgaryfirvöld úthlutuðu henni loks nýju húsnæði. Þar bjó hún til 1970 en þá fékk hún íbúðina í Divis-fjölbýlishúsinu.

Divis var raunar þyrping samtengdra fjölbýlishúsa. Þau voru síðar öll rifin nema turnlaga húsið sem trónir yfir hinum húsunum á myndinni/Skjáskot

Þar bjuggu eingöngu kaþólikkar og samúðin með Írska lýðveldishernum (IRA) var mikil sem og hatrið á breska hernum sem kominn var til Norður-Írlands til að hjálpa lögreglunni í baráttunni við IRA og aðra vopnaða hópa kaþólikka og lýðveldissinna. Margir íbúanna tóku þátt í átökunum m.a. með því að fela vopn. Skotbardagar voru algengir í Divis og nágrenni þess og margar nætur þurfti McConville-fjölskyldan að sofa á gólfinu.

Eftir að fjölskyldan flutti þangað var húsbóndinn Arthur greindur með lungnakrabbamein. Arthur lést af völdum meinsins í byrjun árs 1972 og eftir stóð ekkjan Jean með börnin þeirra 10 sem þá voru á aldrinum 6-20 ára. Jean fékk eins konar taugaáfall og fór aðeins að heiman til að kaupa í matinn og heimsækja elsta son sinn í fangelsi þar sem hann sat fyrir að vera meðlimur í IRA.

Örlagaríkur meintur skotbardagi

Samkvæmt börnum hennar vakti Jean fyrst athygli IRA þegar hún hlúði stuttlega að breskum hermanni sem hafði særst í skotbardaga skammt frá íbúð fjölskyldunnar.

Jean var þegar óvinsæl í Divis af því hún var úr mótmælendafjölskyldu og hafði neitað að taka þátt í að fela vopn. Ráðist var á börn hennar fyrir að neita að taka þátt í starfi IRA og hundar fjölskyldunnar voru drepnir. Í eitt skipti var Jean plötuð til að setjast inn í bíl og var hún í kjölfarið keyrð á afvikinn stað og yfirheyrð af IRA í marga klukkutíma og voru henni einnig veittir talsverðir áverkar. Hún komst að lokum aftur heim en var illa haldin, ekki síst andlega.

Á bilinu einum degi til viku eftir þennan atburð var Jean sótt heim til sín og kom ekki aftur en óljóst er nákvæmlega hvaða mánaðardag það var. Öruggt er þó að það var í byrjun desember.

Þegar hópurinn bankaði upp á hjá Jean og skipaði henni að fylgja sér veitti hún mótspyrnu en var dregin út. Sonur hennar fylgdi á eftir en neyddist til að hörfa þegar byssu var beint að höfði hans.

Eins og áður sagði var börnum Jean tilkynnt að hún kæmi aftur eftir hálftíma en við það var ekki staðið.

Fimm dögum síður kom liðsmaður IRA að íbúð fjölskyldunnar og afhenti einum sona Jean handtöskuna hennar og giftingarhring. Sonurinn spurði frétta af móður sinni en maðurinn sagði, í höstugum tón, að honum hefði bara verið sagt að afhenda þetta. Hann sagðist ekkert vita um afdrif móður hans.

Þögnin ein

Fyrstu dagana eftir hvarf Jean kom enginn nágranni við hjá börnunum til að athuga hvernig þau hefðu það og lögreglan lét heldur ekki sjá sig. Sagt er að nágrannarnir hafi ekki viljað skipta sér af og einnig að þeir hafi litið svo á að Jean hafi átt þetta skilið.

Ekkert gerðist í málinu fyrr en tæpum 5 vikum síðar þegar fjölmiðlar fjölluðu um hvarf Jean og ræddu við börn hennar. Til að bregðast við umfjölluninni breiddu lýðveldissinnar það út að Jean væri í felum og myndi flótlega snúa aftur heim til barnanna. Það var reyndar ekki satt en tilganginum með þessari sögu var náð þegar hvarfið hvarf fljótt úr kastljósi fjölmiðla.

Hluti barnanna í sjónvarpsviðtali árið 1973/Skjáskot

Nágrannarnir sögðu börnunum að móðir þeirra hefði stungið af með breskum hermanni. Börnin voru loks hrakin úr íbúðinni. Þau elstu sáu um sig sjálf en eitt þeirra var reyndar í fangelsi og annað lá inni á sjúkrahúsi. Fimm yngstu börnunum var komið fyrir á munaðarleysingjahæli.

Árin liðu. Sum barnanna voru beitt ofbeldi á munaðarleysingjahælum og öðrum stofnunum. Þegar kom fram á fullorðinsárin glímdi meirihluti þeirra við m.a. vanheilsu, áfengisfíkn, eiturlyfjafíkn og heimilisleysi. Elsta barnið Anne lést 1992 þegar hún var 39 ára gömul.

Sum barnanna gáfust þó ekki upp við að komast að því hvað varð um móður þeirra. Þau rákust oftar en einu sinni á fólk, á förnum vegi, sem var í hópnum sem rændi móður þeirra.

Þegar komið var fram á miðjan tíunda áratug síðustu aldar var þrýst á Gerry Adams þáverandi leiðtoga Sinn Fein, stjórnmálaarms IRA, að veita upplýsingar um afdrif Jean og annarra sem hurfu af völdum IRA. Hann bað börnin loks afsökunar á því sem hreyfing lýðveldissinna hefði gert þeim og hvatti til þess opinberlega að börnum Jean yrði veittar upplýsingar um hvað varð um hana.

Gerry Adams árið 2015/Wikimedia

Útsendari IRA viðurkenndi loks árið 1998 fyrir einni dætra Jean að samtökin bæru ábyrgð á hvarfi hennar.

Var hún uppljóstrari?

Maðurinn fullyrti að ástæðan fyrir þessu væri sú að Jean hefði verið uppljóstrari fyrir breska herinn.

Eftir að lög voru sett 1999 um sakaruppgjöf til þeirra sem myndu veita upplýsingar um hvar lík Jean og annarra sem IRA og önnur samtök létu hverfa á meðan „The Troubles“ stóð bárust upplýsingar um hvar lík hennar var að finna. Leitað var á strönd innan landamæra Lýðveldisins Írlands. Grafið var eftir líkamsleifunum en þær fundust ekki.

Þær fundust hins vegar 2003 skammt frá þeim stað sem leitað hafði verið á. Maður í gönguferð fann þá mannabein og leifar af fötum. Við rannsókn kom í ljós að viðkomandi hafði verið banað með byssuskoti í hnakkann. Meðal fataleifanna fannst öryggisnæla en Jean var alltaf með eina slíka á sér til að auðvelda bleyjuskipti. Þá vissu börn hennar að móðir þeirra hefði loks fundist, 31 ári síðar.

Eins og áður kom fram rannsakaði lögreglan ekki hvarf Jean upphaflega. Árið 1972 var ástandið á Norður-Írlandi það erfitt og eldfimt og atburðir þar sem mannslát urðu svo margir að lögreglan beindi aðeins sjónum sínum að allra alvarlegustu atburðunum.

IRA sagði loks í yfirlýsingu árið 2006 að samkvæmt innri rannsókn samtakanna hefði Jean McConville verið uppljóstrari fyrir breska herinn en lýsti yfir hryggð sinni vegna þjáninga ástvina allra þeirra sem samtökin hefðu orðið að bana. Börn Jean neituðu því hins vegar alfarið að hún hefði verið uppljóstrari.

Árið 2010 kom fyrst fram frásögn af því hvernig nákvæmlega fór fyrir Jean en þá var gefin út bók sem byggði á upptökum, sem gerðar voru leynilega, af fyrrum liðsmanni IRA Brendan Hughes en bókin kom út að honum látnum. Þó hefur hans frásögn af örlögum Jean verið dregin í efa. Hann segir að IRA hafi fundið senditæki frá breska hernum í íbúð Jean og hún hafi viðurkennt við yfirheyrslur að vera uppljóstrari. Vegna þess að hún var kona hefði henni verið veitt viðvörun og sagt að ef hún myndi ekki láta af slíku athæfi yrðu afleiðingarnar enn alvarlegri. Annað tæki frá breska hernum hefði hins vegar fundist í íbúðinni og þá hefði verið ákveðið að taka Jean af lífi. Hann fullyrti að áðurnefndur Gerry Adams hefði tekið þá ákvörðun.

Gerry Adams og Brendan Hughes á sínum yngri árum

Annar fyrrum liðsmaður IRA, Dolours Price, sagði frá því í viðtali sem birt var árið 2018, en þá var hún látin, hvernig dauða Jean McConville bar að. Price var liðsmaður sérstakrar sveitar innan IRA sem hafði m.a. það verkefni að finna uppljóstrara breska hersins. Hennar frásögn hefur þó einnig verið dregin í efa.

Price fullyrti að Jean hefði verið uppljóstrari fyrir breska herinn og að það hefði uppgötvast að hún hefði afhjúpað liðsmenn IRA. Price sagði að við yfirheyrslur hefði Jean játað að vera uppljóstari hersins og þegið fyrir það peningagreiðslur. Eftir játninguna hafi Jean verið flutt yfir landamærin til Lýðveldisins Írlands og haldið í nokkra daga. Eftir að karlmennirnir sem áttu að drepa hana neituðu að gera slíkt við konu hafi Price og þrjár aðrar manneskjur haldið á staðinn og tekið Jean McConville af lífi með byssuskoti í hnakkann.

Dolours Price/Wikimedia

Það er enn ekki fyllilega vitað hver það var nákvæmlega sem skaut skotinu sem varð Jean að bana

Árið 2006 rannsakaði Umboðsmaður lögreglunnar á Norður-Írlandi, en það er embætti sem m.a. rannsakar kvartanir í hennar garð, hvort að Jean hefði verið uppljóstrari en engar sannanir fundust um það. Óvissan um það var þó sögð vera talsverð þar sem bresk yfirvöld hafa þá stefnu að veita ekki upplýsingar um nöfn uppljóstara.

Lögreglan á Norður-Írlandi baðst að lokum afsökunar á því að hafa ekki rannsakað hvarf Jean árið 1972. Hvarfið var rannsakað loks á öðrum áratug þessarar aldar. Árið 2014 voru tveir menn handteknir, grunaðir um aðild að hvarfinu. Þar á meðal var Gerry Adams sem þá var enn leiðtogi stjórnmálaflokksins Sinn Fein en hann lét af því embætti árið 2018. Hann var látinn laus eftir fjóra daga og á endanum var hann ekki ákærður vegna skorts á sönnunum. Hann neitar því eindregið að eiga þátt í hvarfi Jean McConville.

Maðurinn sem var einnig handtekinn á sama tíma og Adams var hins vegar ákærður en á endanum sýknaður þar sem sönnunargögn þóttu óáreiðanleg.

Í dag eru 4 af þeim 10 börnum Jean McConville sem komust á legg látin.

Agnes McConville var 13 ára þegar móður hennar, Jean, var rænt. Agnes lést af völdum krabbameins árið 2018/Skjáskot

Þau sem eftir lifa hafa barist fyrir frekari rannsókn á dauða móður þeirra og eru sannfærð um að hún hafi ekki verið uppljóstrari.

Mál Jean McConville er eitt það þekktasta í sögu „The Troubles“ ekki síst vegna þess að leiðtogi Sinn Fein til fjölmargra ára hefur verið ásakaður um að eiga aðild að málinu. Það vekur einnig athygli að 10 barna móðir og ekkja hafi verið myrt á svo grimmilegan hátt, skotin í hnakkann og svo grafin.

Jean var loks jarðsett árið 2003 en útförin var ekki vel sótt enda voru margir enn vissir í sinni sök að hún hefði verið uppljóstrari. Sumir segja enn þann dag í dag að hún hafi fengið það sem hún átti skilið.

Einn sona Jean segir að móðir hans hafi ítrekað orðið fyrir afmennskun af hálfu IRA sem hafi gert það ljóst að samtökin teldu líf hennar vera einskis virði.

Skömmu eftir hvarf Jean var börnum hennar hótað og sagt að hafa ekki hátt um hvarfið. Flest þeirra, af þeim sem enn eru á lífi, segjast vita hvaða fólk það nákvæmlega var sem myrti móður þeirra en þora ekki að segja það opinberlega vegna ótta um að vera sjálf myrt.

Aðallega byggt á hlaðvarpinu The Troubles.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Þessi mynd varð stórtækum fíkniefnasmyglurum að falli

Þessi mynd varð stórtækum fíkniefnasmyglurum að falli
Pressan
Fyrir 2 dögum

Skyndilega farin að fylgja Trump á miðlum Meta og geta ekki hætt því – „Þetta er bara fasísk áróðursmaskína á fullri ferð“

Skyndilega farin að fylgja Trump á miðlum Meta og geta ekki hætt því – „Þetta er bara fasísk áróðursmaskína á fullri ferð“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Maðurinn sem skýldi Trump eftir að hann var skotinn fær veglega stöðuhækkun

Maðurinn sem skýldi Trump eftir að hann var skotinn fær veglega stöðuhækkun
Pressan
Fyrir 2 dögum

Fá 170 milljónir í bætur – Læknar skildu blæðandi konu eftir og fóru á barinn

Fá 170 milljónir í bætur – Læknar skildu blæðandi konu eftir og fóru á barinn
Pressan
Fyrir 3 dögum

Játar að hafa myrt þrjú börn í enskum dansskóla

Játar að hafa myrt þrjú börn í enskum dansskóla
Pressan
Fyrir 3 dögum

Vilja gera fíkniefnapróf á tónleikagestum

Vilja gera fíkniefnapróf á tónleikagestum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Læknar gerðu skelfilega uppgötvun þegar 8 ára stúlka var lögð inn á sjúkrahús með COVID-19

Læknar gerðu skelfilega uppgötvun þegar 8 ára stúlka var lögð inn á sjúkrahús með COVID-19
Pressan
Fyrir 4 dögum

Notuðu Snapchat til að skipuleggja hrottalega árás

Notuðu Snapchat til að skipuleggja hrottalega árás
Pressan
Fyrir 4 dögum

Trump lét Pútín finna fyrir því: „Hann getur ekki verið ánægður“

Trump lét Pútín finna fyrir því: „Hann getur ekki verið ánægður“