Bandaríska flugfreyjan Lisa Kulpa vinnur fyrir bandaríska lággjaldaflugfélagið JetBlue og er jafnframt meðstofnandi bloggsins Basic Travel Couple. Í viðtali við The Points Guy ræddi Gulpa um helstu ferðaráð sín og hvað flugfarþegar ættu alls ekki að gera um borð í flugvél.
„Vinsamlegast ekki koma með eigið áfengi og neyta þess á meðan á fluginu stendur,“ segir hún. „Við þurfum að vita, vegna þíns öryggis og annarra sem eru um borð, hvort þú ert ölvaður og hversu ölvaður. Með því að bjóða eða selja þér áfengi á meðan á flugi stendur getum við fylgst með hversu mikið þú drekkur. Áfengi hefur önnur áhrif á fólk þegar er komið upp í háa lofthæð og ef það líður skyndilega yfir farþega eða annað fer úrskeiðis, þá þurfum við að vera meðvituð um hvað gæti verið að, eins og til dæmis hvort þú hefur neytt áfengis.“
Víða gilda sektir við slíku athæfi. Í skilmálum Icelandair svo dæmi sé tekið segir í 11. grein skilmála: Hegðun um borð í flugvélum:
„Ef flugrekandi metur það svo að hegðun farþega um borð í vélinni stofni flugvélinni eða einhverjum einstaklingi eða eignum um borð í hættu, eða hindri áhöfnina í starfi sínu, eða farþegi fylgi ekki fyrirmælum áhafnarinnar, til dæmis um reykingar, áfengis- eða vímuefnaneyslu, eða hegði sér á þann hátt að það valdi öðrum farþegum eða áhöfninni óþægindum, vandkvæðum eða meiðslum, getur flugrekandi gert þær ráðstafanir sem hann telur réttmætar og nauðsynlegar til að binda enda á slíka háttsemi, þar á meðal frelsissviptingu. Flugrekanda er heimilt að vísa farþega frá borði og neita honum um áframhaldandi ferð hvenær sem er og getur kært farþega fyrir brot sem framin eru um borð í flugvélinni.“
Kulpa er frá Ástralíu og segir að samkvæmt reglugerð þar í landi um öryggi í almenningsflugi sé það lögbrot fyrir farþega að neyta áfengis í flugvél ef áfengið hefur ekki verið útvegað af áhafnarmeðlimi. Sektin geti numið allt að 10 þúsund áströlskum dölum (tæpar 900 þúsund krónur) fyrir slíkt brot.
Aðrir hlutir sem Kulpa varar farþega við að hafa með sér um um borð eru meðal annars naglaklippur, naglalakk og naglalakkseyðir. „Naglalakk og naglalakkseyðir munu láta alla flugvélina lykta og sumir farþegar verða veikir af lyktinni. Sama á við um mat með sterkri lykt, jafnvel þó það sé bara samloka.“
Mælir hún með að hafa hluti í handfarangri sem dýrt, erfitt eða ómögulegt er að bæta, eins og bíllykla, lyf og raftæki. Fyrir eigin geðheilsu og annarra farþega mælir hún með að fólk noti heyrnartól þegar það hlustar á tónlist eða horfia á sjónvarp. Gott er að hafa peysu eða lítið teppi meðferðis til að auka á þægindi í fluginu, og ef þú ert einn af þeim flugfarþegum sem sparkar skónum af þér um leið og þú sest í sætið þitt. „Ef þú vilt ekki vera í skóm um borð, vertu með inniskó eða töflur, ekki fara á salernið berfættur eða á sokkunum.“