Ferðamaður við Como-vatn á Ítalíu lýsti yfir hneykslun sinni á samfélagsmiðlum vegna reiknings á veitingastaðnum Bar Pace í Gera Lario, við norðurenda vatnsins. Á reikningum má sjá að ferðamaðurinn var rukkaður um aukagjald upp á tvær evrur (um 289 krónur) fyrir að skera samlokuna hans í tvennt.
Karlmaðurinn hafði pantað sér grænmetissamloku með frönskum kartöflum innan í. Óskaði hann eftir að samlokan yrði skorin í tvennt þar sem hann ætlaði að deila henni með félaga sínum. Eftir að hafa borðað kom reikningurinn með aukagjaldinu. Maðurinn greiddi án þess að kvarta eða gera athugasemd, en birti í kjölfarið neikvæða umsögn á TripAdvisor um veitingastaðinn.
Á reikningnum má sjá að verð fyrir samlokuna er 7,50 evrur, Coca Cola 3,50 evra, vatn 1,5 evra og espresso 1,20 evrur, ásamt aukagjaldinu, „diviso da meta“ eða „skera í tvennt“ upp á 2 evrur, eða samtals 15,7 evrur.
Gaf hann veitingastaðnum eina stjörnu, sem er langt undir meðaltalinu, en staðurinn er með 4,5 stjörnu og alls 111 umsagnir.
Eigandi veitingastaðarins sagði aukagjaldið eðlilegt. „Viðbótarbeiðnir fela í sér kostnað,“ sagði eigandinn Cristina Biacchi við ítalska dagblaðið La Repubblica.
„Við þurftum að nota tvær diska í stað eins og tíminn til að þvo þá tvöfaldast og svo tvær diskamottur. Þetta var ekki einföld ristuð samloka, það voru líka franskar kartöflur inni í. Það tók okkur tíma að skera samlokuna í tvennt.“
Hún tók einnig fram að viðskiptavinurinn kvartaði ekki eða efaðist um gjaldið á staðnum og sagði að hún hefði fellt gjaldið niður ef viðskiptavinurinn hefði gert athugasemd.
Málið vakti talsverða athygli, þar á meðal fjölmiðla, og fór svo að Tripadvisor lokaði fyrir umsagnir um veitingastaðinn:
„Vegna nýlegs atburðar sem hefur vakið athygli fjölmiðla og hefur valdið innstreymi af umsögnum sem lýsa ekki reynslu frá fyrstu hendi, höfum við stöðvað tímabundið birtingu nýrra umsagna um þessa skráningu,“ segir við undirsíðu veitingastaðarins á Tridadvisor.
Fimm umsagnir hafa fengist birtar frá því samlokuatvikið átti sér stað í júní og eru þær frá einni stjörnu upp í fimm.
Slík aukagjöld ekki einsdæmi
Í frétt New York Post um málið segir að þetta sé ekki einsdæmi í dýrum borgum og vinsælum ferðamannastöðum í Bandaríkjunum, þar sem dæmi er um að neyslugrannir matargestir séu stundum rukkaðir um aukagjald, svokallað share charge eða split plate charge, til að bæta veitingastaðnum upp þá staðreynd að innkoman fyrir viðkomandi borð og matargesti sé lægri en annarra. Sumir veitingastaðir í New York hafa jafnvel brugðið á það ráð að banna gestum sínum að deila mat.