Kona frá Flórída í Bandaríkjunum hefur verið dæmt í fjögurra ára fangelsi fyrir að hafa svikið ævisparnaðinn úr öldruðum karlmanni.
Konan, Peaches Stergo, er á fertugsaldri og beitti manninn blekkingum til að hafa af honum fé, en aðferðin sem hún beitti er kölluð ástarsvik, eða romance scam, en þessi svik eru orðin nokkuð algeng og hafa gífurlega margir farið illa út úr slíkum málum. Þessi svik eiga sér oftast stað í gegnum samfélagsmiðla og beinast helst gegn eldra fólki, einhleypu fólki á miðjum aldri, eða öðrum hópum sem eru líklegri til að upplifa mikinn einmanaleika.
Fórnarlamb Peaches var 87 ára karlmaður, sem mátti muna tímanna tvenna og hafði meðal annars lifað af helförina í seinni heimsstyrjöldinni.
Er talið að Stergo hafi á tímabilinu 2017-2021 svikið rúmlega 400 milljónir úr manninum, eða öllum hans sparnaði í gegnum ævina. Hún komst í samband við manninn í gegnum stefnumótasíðu. Þar áttu þau í töluverðum samskiptum á meðan Stergo lagði grunninn að svikum sínum, en það er hluti af svikum af þessu tagi að byrja á því að vinna sér inn traust til að engar viðvörunarbjöllur fara af stað þegar svikin hefjast. Hún lét svo til skara skríða árið 2017 og bað manninn um að lána sér smá pening undir því yfirskini að hún þyrfti að borga lögmanni sem væri að aðstoða hana við að heimta slysabætur.
Teningunum var kastað og næstu árin fékk Stergo manninn til að leggja inn á sig peninga af ýmsum ástæðum. Til dæmis hélt hún því fram að bankareikningur hennar yrðu frystur ef hún legði ekki inn á hann pening og ef svo færi gæti hún aldrei borgað honum til baka. Stergo gekk svo langt að hún bjó til sérstakt netfang þar sem hún þóttist vera bankastarfsmaður. Þetta netfang notaði hún til að selja lygar sínar og til að senda manninum falsaðar kvittanir.
Svo fór að maðurinn hafði lagt allt lausafé sitt inn á Stergo, og þar sem hann var á eftirlaunum dugðu tekjur hann skammt. Fór því svo að hann neyddist til að selja heimilið sitt. Á meðan það átti sér stað lifði Stergo dekurlífi á því sem áður var sparnaður aldraða mannsins. Hún keypti sér rándýra fasteign, keypti sér bát, skellti sér í munaðarfull ferðalög og gistingu á fim stjörnu hótelum og svo eyddi hún miklum peningum í sælkeramat, skartgripi, gull og hátískufatnað úr smiðju Tiffany, Ralph Lauren, Louis Vuitton og Hermes, svo dæmi séu tekin.
Fyrir dómi voru lögð fram samskipti sem Stergo hafði átt í gegnum netið, meðal annars við elskhuga sinn þar sem hún gerði grín að gamla manninum. Hún kallaði svikin „viðskipti“ og hæddist að gamla manninum fyrir að hafa orðið ástfanginn af henni.
Eins og margir þolendur svika af þessu tagi, þá skammaðist maðurinn sín rosalega fyrir að hafa komið sér í þessa stöðu. Það var ekki fyrr en fjórum árum eftir að hann lagði fyrst inn á Stergo sem hann trúði syni sínum fyrir því að hann hafi lagt aleiguna inn á konu sem hann kynntist á netinu, í þeirri trú um að hann fengi það greitt til baka. Sonur hans sá strax hvernig í málinu lá og hafði samband við lögregluna.
Nú þarf Stergo að afplána fjögur ár í fangelsi og þar að auki að borga gamla manninum rúmlega 372 milljónir í skaðabætur. Heimili hennar, fasteign í virðulegu hverfi, var tekin af henni sem og rúmlega 100 hátísku- og lúxusmunir sem hún hafði sankað að sér, þar á meðal Rolex úr og skartgripir.
Eins kom fram fyrir dómi að Stergo hafi átt erfiða æsku þar sem hún upplifði óöryggi og áföll. Þetta hafi orðið til þess að hún þróaði síðar með sér áráttu hegðun á borð við áfengisdrykkju og fjárhættuspil. Ástarsvikin hafi orðið að áráttu hjá henni. Hún er sögð sjá eftir háttsemi sinni og ætla eins og hún getur að endurgreiða manninum.
Saksóknari sagði það þó ekki réttlæta hversu andstyggileg hún var í garð mannsins.
„Ekki bara spilaði hún á tilfinningar þolandans árum saman, heldur gerði hún í laumi grín að honum fyrir að segjast elska hana. Henni fannst það bráðfyndið að hún væri að rústa lífi hans til eigin hagsbóta.“
Eldri maðurinn lifði, eins og áður segir, af helförina, en foreldrar hans gerðu það því miður ekki. Hann flutti til Bandaríkjanna á þrítugsaldri í von um betra líf.
„Næstu 60 árin vann ég hörðum höndum að því að byggja upp fyrirtæki, fjölskyldu og heimili í New York. Ég er núna 88 ára gamall og það seinasta sem ég bjóst við var að verja mínum seinustu dögum eins og ég varði þeim fyrstu – blankur og svikinn.“
Á seinasta ári er áætlað að um 19 þúsund einstaklingar hafi orðið fyrir barðinu á ástarsvikum og tapað í heildina tæpum 100 milljörðum.