fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Pressan

Morðið sem kom af stað keðjuverkun hörmunga

Jakob Snævar Ólafsson
Föstudaginn 21. júlí 2023 22:00

Niedermayer fjölskyldan. Frá vinstri: Gabriella, Thomas, Ingeborg, Renate/Skjáskot

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Thomas Niedermayer, sem fæddist árið 1928, var samviskusamur, duglegur og skipulagður eins og svo margt annað fólk af þýsku bergi brotið.

Hann var úr fjölskyldu sem tilheyrði verkamannastétt og varð ekki langskólagenginn. Hann stóð sig hins vegar feykilega vel eftir að hann fór út á vinnumarkaðinn. Átján ára gamall var hann ráðinn verkstjóri hjá verkfæraframleiðanda. Hann gat sér gott orð og 1955 var hann ráðinn í stjórnendateymi raftækjaframleiðandans stórtæka Grundig.

Niedermayer kvæntist árið 1952 konu að nafni Ingeborg Tramowsky. Ingeborg var fædd og uppalin í austurhluta Prússlands. Prússland var lengi vel öflugasta og valdamesta ríki Þýskalands en þegar síga fór á ógæfuhliðina í seinni heimstyrjöldinni neyddust þýskir íbúar þess, sérstaklega austasta hlutans, til að flýja. Eftir stríðið rann stærstur hluti Prússlands inn í Pólland annars vegar og Sovétríkin hins vegar.

Flóttinn skildi eftir ör á sálum margra þeirra sem þurftu að flýja og Ingeborg var þar ekki undanskilin. Hún var alla tíð viðkvæm og yrði líklega í dag greind með kvíða- og áfallastreituröskun. Flestum sem þekktu hjónin bar saman um að Ingeborg hafi treyst mjög á styrk og staðfestu eiginmanns síns.

Tækifæri á ógnvænlegum stað

Thomas Niedermayer hélt áfram að klífa metorðastigann innan Grundig og vílaði ekki fyrir sér að takast á við ný og krefjandi verkefni. Árið 1961 var hann fenginn til að stýra nýrri verksmiðju fyrirtækisins á Norður-Írlandi. Verksmiðjan framleiddi einkum segulbands- og upptökutæki. Þegar þarna var komið við sögu höfðu Ingeborg og Thomas eignast tvær dætur, Renate og Gabriella, og flutti öll fjölskyldan við svo búið til Norður-Írlands.

Starfsmönnum verksmiðjunnar fannst Niedermayer vera strangur en sanngjarn yfirmaður.

Eftir því sem á búsetu Niedermayer fjölskyldunnar á Norður-Írlandi leið fór að bera meira á ofbeldi og vopnuðum átökum milli andstæðra fylkinga annars vegar sambandssinna, sem flestir voru mótmælendatrúar og fóru með völdin, sem vildu að Norður-Írland myndi tilheyra Bretlandi áfram og lýðveldissinna, sem flestir voru kaþólskir og höfðu lítil völd, sem vildu að Norður-Írland sameinaðist Lýðveldinu Írlandi.

Átök í Derry á Norður-Írlandi 1969/Getty

Hin harðnandi átök í norður-írsku samfélagi fóru ekki vel í viðkvæma sál Ingeborg og hún óttaðist um öryggi fjölskyldunnar. Thomas var hins vegar í rónni þar sem hann taldi öruggt að þar sem þau væru útlendingar væru þau fullkomlega örugg. Honum þótti ljóst að þeir hópar sem bárust á banaspjótum myndu ráðast hverjir gegn öðrum en láta aðkomufólk frá erlendu ríki í friði.

Honum átti hins vegar því miður eftir að skjátlast hrapalega.

Óvænt heimsókn að kvöldi til

Staða hans sem yfirmaður verksmiðjunnar gerði Thomas Niedermayer að miklu stærra skotmarki en hann gerði sér nokkurn tímann grein fyrir. Írski lýðveldisherinn (IRA) ákvað að ræna honum þar sem samtökin töldu að það myndi tryggja að bresk stjórnvöld myndu ganga að kröfum þeirra, sem snerust helst um að flytja nokkra fanga úr röðum samtakanna frá Englandi til Norður-Írlands, til að skaða ekki samband sitt við heimaland Niedermayer, Vestur-Þýskaland.

Um klukkan ellefu að kvöldi 27. desember 1973 var knúið dyra á heimili Niedermayer fjölskyldunnar. Thomas og dæturnar Gabriella, sem þá var 19 ára, og Renate, sem þá var 16 ára voru heima. Renate fór til dyra og fyrir utan stóðu tveir menn sem báðu um að fá að tala við föður hennar þar sem þeir hefðu óvart keyrt á kyrrstæðan bíl hans og ollið skemmdum á honum.

Thomas fór með mönnunum út. Nágranni fjölskyldunnar sá hann tala við mennina en þegar Thomas ætlaði aftur inn í hús sitt gripu mennirnir í hann og eftir nokkur átök hentu þeir honum í skottið á bílnum sínum og keyrðu á brott. Mikil leit hófst og Grundig fordæmdi ódæðið. Fullyrti fyrirtækið að í verksmiðju þess störfuðu mótmælendur og kaþólikkar hlið við hlið og í sátt og samlyndi en síðar kom reyndar í ljós að einn skipuleggjenda mannránsins var fyrrverandi starfsmaður verksmiðjunnar og þekkti hann vel til Niedermayer.

Ingeborg og dæturnar voru skiljanlega fullar ótta um afdrif Thomas. Ránið á honum kom af stað fjölmiðlafári en mannræningjarnir létu ekki í sér heyra. Mæðgurnar héldu í vonina en tíminn leið og rannsókn lögreglu bar engan árangur. Það ber að hafa í huga að fyrst eftir hvarf Thomas var ekkert vitað hvað orsakaði það eða hverjir kynnu að standa að baki því. Síðar kom í ljós að IRA hafði samband við bresk stjórnvöld og setti fram kröfurnar sem uppfylla yrði ef láta ætti Thomas lausan. IRA sleit þó fljótlega öllum samskiptum en bresk stjórnvöld héldu því lengi fram að samtökin hefðu aldrei haft samband vegna málsins.

Forsíða breska dagblaðsins The Daily Mirror frá 29. desember 1973

Þurftu að halda áfram með lífið

Að rúmlega hálfu ári liðnu var rannsókn lögreglu á hvarfi Thomas Niedermayer að mestu leyti hætt. Ingeborg lét reisa legstein til minningar um mann sinn. Gabriella giftist breskum hermanni og flutti frá Norður-Írlandi en Ingeborg og Renate dvöldu þar áfram á meðan sú síðarnefnda kláraði skólagöngu sína. Mæðgurnar neyddust einfaldlega til að halda áfram með líf sitt.

Árið 1979 bárust lögreglunni hins vegar upplýsingar um að Niedermayer væri látinn og að lík hans væri grafið í gróðursælum dal í nágrenni heimilis fjölskyldunnar. Svæðið hafði síðan þá verið notað sem ruslahaugur og var það að undirlagi IRA sem vildi fela líkið enn betur.

Ruslið var fjarlægt undir því yfirskini að um væri að ræða átak unhverfisverndarsamtaka, til að styggja ekki IRA um of en lögreglan óttaðist að ef samtökin vissu að verið væri að grafa eftir líki Thomas Niedermayer myndu þau svara því með hrinu ofbeldisverka. Það tók mánuð að fjarlægja allt ruslið og nokkrar vikur í viðbót tók að finna líkið en það tókst að lokum í mars 1980.

Krufning leiddi í ljós að Niedermayer hafði verið sleginn þungum högum í höfuðið með byssu. Tveir menn, John Bradley og Eugene McManus, voru handteknir grunaðir um morðið og voru síðar dæmdir fyrir það. Þeir skýrðu frá því að þeir og tveir aðrir menn hefðu haft Niedermayer í haldi en eftir 3 daga hafi hann reynt að flýja. Hann komst þó ekki langt og var þá sleginn í höfuðið með byssunni og höfði hans ýtt niður á rúmdýnu. Það fór ekki betur en svo að innan nokkurra mínútna var Thomas Niedermayer látinn. Mennirnir sáu ekki annan kost í stöðunni en að grafa hann.

Mæðgurnar gátu því loks haldið formlega útför Thomas og var hann jarðaður á Norður-Írlandi.

Frá vinstri Gabriella, Ingeborg og Renate við útför fjölskylduföðursins Thomas árið 1980/Skjáskot

Maran endalausa sem ýtti af stað hrinu sjálfsvíga

Fyrstu dagana eftir hvarf Thomas sögðust dætur hans og eiginkona óttast það mest að fá aldrei að vita um afdrif hans. Ef hann væri látinn þá vildu þær vita það.

Þótt að það hafi nú skýrst þá virtist engu þungu fargi af þeim létt. Raunar þvert á móti.

Ingeborg þakkaði fyrir stuðning sem mæðgunum var sýndur á Norður-Írlandi og fullyrti opinberlega að nú ættu þær auðveldara með að halda áfram með lífið. Eftir útför eiginmanns síns flutti hún aftur til Þýskalands en hún hafði ekki búið þar í 20 ár og leið ekki vel. Hún jafnaði sig aldrei á dauða Thomas og eftir að hann fannst varð samband hennar og dætranna aldrei samt.

Ingeborg flutti til Lýðveldisins Írlands árið 1990 og daginn sem nákvæmlega 10 ár voru liðin frá útför hans bókaði hún herbergi á hóteli við sjávarsíðuna. Hún fór niður að ströndinni, gekk í sjóinn og drekkti sjálfri sér.

Gabriella, sem var sjálf búinn að eignast tvær dætur, var eina manneskjan sem var viðstödd útför móður sinnar. Samband hennar við Renate systur sína hafði verið lítið lengi. Renate þjáðist mjög af sektarkennd en hún kenndi sjálfri sér um örlög föður síns þar sem hún hefði opnað dyrnar fyrir mönnunum kvöldið örlagaríka.

Eftir að Renate lauk skólagöngu sinni á Norður-Írlandi flutti hún til Englands og því næst til Suður-Afríku. Hún giftist aldrei og eignaðist engin börn. Renate virðist ekki hafa treyst sér til að fara í útför móður sinnar og árið 1991 tók hún einnig eigið líf.

Að foreldrum hennar og systur látnum fór andleg heilsa Gabriella snarversnandi. Eiginmaður hennar og dætur gerðu sitt besta til að hjálpa henni en árið 1994 framdi hún sjálfsvíg.

Hrinu sjálfsvíganna var þó ekki lokið. Eiginmaður Gabriella, Robin, var skiljanlega harmi sleginn en að sögn dóttur hjónanna gat hann ekki skilið hvernig nokkur manneskja gat fengið það af sér að binda enda á eigið líf. Hann gat hins vegar einfaldlega ekki haldið áfram með lífið án eiginkonu sinnar. Árið 1999 var andlega heilsa hans komin niður í dýpstu lægðir. Hann játaði fyrir dóttur sinni að hann glímdi við miklar sjálfvígshugsanir og á endanum lét hann þær verða að veruleika.

Morð IRA á Thomas Niedermayer hafði þannig stuðlað að fjórum sjálfsvígum og því má í raun segja að samtökin hafi í þessu tilfelli framið fimmfalt morð. Þetta mál er áminning um að morð hafa oft í för með sér viðbótar hörmungar.

Einkum byggt á hlaðvarpinu The Troubles.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Forsætisráðherra Kanada stígur til hliðar

Forsætisráðherra Kanada stígur til hliðar
Pressan
Fyrir 5 dögum

Lýsir sorglegri sögu mannsins í Teslunni – Sá hluti sem höfðu mikil áhrif á hann

Lýsir sorglegri sögu mannsins í Teslunni – Sá hluti sem höfðu mikil áhrif á hann