fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Pressan

Flugfarþega brá verulega skömmu eftir flugtak

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 6. júlí 2023 14:00

Mynd: Wikimedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á ferðavef CNN segir frá flugferð Habib Battah, sem er blaðamaður búsettur í Líbanon, og eiginkonu hans með franska flugfélaginu Air France frá París til Toronto í Kanada, 30. júní síðastliðinn.

Hjónin voru með kettina sína tvo með sér í farþegarýminu, í sérstökum töskum, og settust í sætin sín. Flugvélin var nýfarin í loftið þegar Battah fann skrýtna lykt sem virtist stafa frá gólfinu undir og við sæti hjónanna. Hann segir að lyktin hefði minnt á mykju og óttaðist í fyrstu að kettirnir hefðu létt á sér.

Battah kraup á gólfinu og sá strax að kettirnir höfðu verið svo kurteisir að gera ekki þarfir sínar um borð í flugvélinni.

Hann tók þá eftir stórum og blautum bletti á gólfinu sem virtist vera um hálfur metri á breidd og gerði sér þá grein fyrir að lyktin stafaði frá honum. Battah lét flugfreyju vita og sagði henni að það væri bókstaflega skítalykt af blettinum. Hún rétti honum blautþurrkur sem Battah notaði á blettinn en þær urðu fljótt rauðar og ljóst var að um væri að ræða blóð. Önnur flugfreyja kom þá og ráðlagði honum að þvo sér um hendurnar og rétti honum hanska.

Battah hélt þrifunum áfram en flugstjórinn hafði samband við höfuðstöðvar Air France og spurði hvers vegna í ósköpunum það væri stór blóðblettur undir sætum hjónanna. Svarið var að daginn áður, í þessari flugvél, hefði farþega byrjað að blæða mikið en þó lifað af. Flugstjórinn í því flugi hafði beðið um að blóðið yrði þrifið upp en gólfið virðist hafa gleymst.

Þegar þarna var komið við sögu var blóðið búið að leka inn í aðra töskuna sem hjónin höfðu kettina í og Battah hamaðist við að þrífa hana með blautþurrkunum. Hann er ósáttur við að áhöfninni, fyrir utan eina flugfreyju, virtist standa á sama.

Það var ekki bara blóð í blettinum

Hjónunum voru boðnar tvær vatnsflöskur í sárabætur og teppi með púðri, til að draga í sig blóðið, voru sett á blettinn. Flugvélin var fullsetin og því ekki hægt að færa þau í ný sæti en flugið tók 7 klukkutíma. Battah segir lyktina af blóði sem farið er að rotna eins og hann orðar það minna á mykju. Áður en hann uppgötvaði blettinn hafði hann farið úr sokkunum og sett fæturna beint í blettinn. Honum var skiljanlega nokkuð brugðið að hafa blóð á sokkunum.

Til að bæta gráu ofan á svart hafði Air France samband við hann þremur dögum eftir að flugvélin lenti í Kanada og skýrði honum frá því að í blettinum sem hann steig í hefði blóðið blandast saman við saur.

Air France sagði í yfirlýsingu að farþegi í flugi 29. júní, frá París til Boston, hefði veikst. Einhverjar leifar hafi orðið eftir að þrifum loknum en áhöfnin hefði þegar í stað aðstoðað Battah við að þrífa, blettinn og eigur sínar, eftir að hann tilkynnti um þennan óþrifnað. Flugfélagið harmar óþægindi hans og segir innri rannsókn hafna á því hvers vegna svona fór.

Battah segir að í starfi sínu sem blaðamaður í Beirút hafi hann upplifað stríð, loftárásir, morð, bílsprengjur og sprenginguna öflugu við höfnina, fyrir nokkrum árum. Hann hélt að hann hefði séð allt en bjóst engan veginn við að sjá og fá á sig blóð um borð í flugvél Air France.

Hann sakar flugfélagið um alvarlegt gáleysi í ljósi þess að ekki var gripið til neinna ráðstafana vegna mögulegrar smithættu þar sem um var að ræða blóð og saur. Air France staðfesti við CNN að blóð og saur hafi verið í blettinum á gólfi vélarinnar en svaraði því ekki hvers konar efni eru notuð til að þrífa slík fyrirbrigði úr flugvélum félagsins. Flugfélagið hélt því þó fram að smithætta hafi verið lítil þar sem magnið hafi ekki verið mikið.

Læknir sem CNN ræddi við andmælir þessum fullyrðingum þar sem ekki er vitað hvort farþeginn sem skildi eftir sig blóðið og saurinn hafi þjáðst af smitsjúkdómi eða einhvers konar sýkingu. Hætta af smistjúkdómum sem smitast við blóðblöndun er þó lítil ef fólk er ekki með sár á húðinni. Læknirinn segir hins vegar að smithættan af saurnum hafi verið meiri þar sem Battah þreif hann án þess að sótthreinsa sem hafi getað orðið til þess að sauragnir slyppu út í andrúmsloftið. Battah þreif saurinn af kattatöskunni á eldhússvæði flugvélarinnar sem læknirinn segir vera enn verra. Læknirinn segir að taka hefði átt flugvélina strax úr umferð og þrífa hana eins og gert sé þegar smithætta sé til staðar.

Habib Battah sættir sig ekki við að Air France hafi aðeins boðið þeim hjónum inneign sem er 20 prósent af verði flugmiðanna tveggja. Hann segir það ekki mönnum bjóðandi að sitja í blóði og saur og hefur leitað til lögfræðinga.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Hafa risavaxnir menn einhvern tímann verið til?

Hafa risavaxnir menn einhvern tímann verið til?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Athyglisverðar myndir prýða 1.600 ára gamlar myntir sem fundust á Ermarsundseyjunum

Athyglisverðar myndir prýða 1.600 ára gamlar myntir sem fundust á Ermarsundseyjunum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Páfagarður bannfærir erkibiskup sem sagði Frans páfa vera „þjón djöfulsins“

Páfagarður bannfærir erkibiskup sem sagði Frans páfa vera „þjón djöfulsins“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Færð þú frið í sumarfríinu? Fyrirtæki hafa samband við þriðja hvern starfsmann í sumarfríinu

Færð þú frið í sumarfríinu? Fyrirtæki hafa samband við þriðja hvern starfsmann í sumarfríinu
Pressan
Fyrir 5 dögum

Sjö ávanar sem gera tannlækninn þinn ríkan

Sjö ávanar sem gera tannlækninn þinn ríkan
Pressan
Fyrir 5 dögum

Fjallgöngumaður hvarf fyrir 22 árum – Fannst nýlega

Fjallgöngumaður hvarf fyrir 22 árum – Fannst nýlega
Pressan
Fyrir 5 dögum

„Gerist bara einu sinni á ævinni“ – Einstakt tækifæri til að sjá sprengingu á dvergstjörnu

„Gerist bara einu sinni á ævinni“ – Einstakt tækifæri til að sjá sprengingu á dvergstjörnu
Pressan
Fyrir 6 dögum

Grunaður um að hafa myrt konu og dætur íþróttafréttamanns með lásboga

Grunaður um að hafa myrt konu og dætur íþróttafréttamanns með lásboga