Þessari spurningu var nýlega velt upp á vef Live Science. Þar er haft eftir David Montgomery, prófessor í landmótunarfræði við University of Washington í Seattle, að það eina sem sé vitað með vissu jarðfræðilega sé að hnattrænt flóð hafi aldrei átt sér stað. „Ef þú horfir bókstaflega á þetta sem hnattrænt flóð sem náði yfir hæstu fjöll heims, þá, því miður, er ekki nóg vatn á jörðinni til að gera það,“ sagði hann í samtali við Live Science.
Ef „himnarnir“ myndu opnast og allt vatnið í andrúmsloftinu myndi falla niður á sama tíma þá myndi öll plánetan fara undir vatn en það verður þá aðeins um 2,5 cm á dýpt að sögn bandarísku jarðfræðistofnunarinnar USGS.
Þetta vatnsmagn myndi ekki duga til að stór örk, eins og Nói er sagður hafa smíðað, gæti siglt á því. Þetta myndi ekki einu sinni duga til að hægt væri að sigla kanó.
En ef allir jöklar jarðarinnar og ísbreiður myndu bráðna þá myndi sjávarborðið hækka um 60 metra að sögn bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA.
Samkvæmt rannsókn sem var birt í vísindaritinu Nature árið 2016 þá eru 22,6 milljónir rúmkílómetrar af vatni í efstu tveimur kílómetrum jarðskorpunnar. Þetta magn myndi vera 180 metrar á dýpt ef það þekkti allt land á jörðinni. Þetta er auðvitað ansi mikið vatnsmagn og djúpt en rétt er að hafa í huga að Mount Everest er um 8,8 km á hæð.