Þetta kemur fram í umfjöllun The Guardian sem segir að víða sé staðan nú orðin þannig að ekki sé hægt að sjá stjörnurnar á himninum vegna ljósmengunar, í besta falli nokkrar. Útilokað sé að sjá Vetrarbrautina eins og hægt var áður fyrr.
Segir miðillinn að aukin notkun LED ljósa og annarra birtugjafa geri að verkum að næturhiminn verði sífellt bjartari. Þetta hafi rannsóknir vísindamanna sýnt.
Mikil notkun útiljósa, ljósaskilta, auglýsingaskilta og upplýstra íþróttaleikvanga hindri sýn okkar til himins.
Árið 2016 sögðu stjörnufræðingar að þriðjungur mannkyns gæti ekki lengur sé Vetrarbrautina á næturhimninum vegna ljósmengunar. Staðan hafi versnað síðan.
Miðað við núverandi þróun mála muni flest hinna stóru stjörnumerkja verða hulin sjónum okkar innan 20 ára. Þetta er eitthvað sem mun hafa mikil áhrif á okkur, bæði menningarlega og vísindalega.