fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Pressan

Lag eftir Leonard Cohen reisti hana upp frá dauðum

Jakob Snævar Ólafsson
Sunnudaginn 14. maí 2023 12:00

Veggmynd í Montreal/Wikimedia

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á vefsíðunni Guideposts er mikið gert út á mátt bænarinnar. Á síðunni er að finna frásagnir af fólki sem sagt er að hafi verið við dauðans dyr en risið upp aftur fyrir náð og miskunn guðs.

Ein þeirra er bandarísk kona að nafni Evangelina Garza sem bjó í suðurhluta Texas-ríkis. Þann 11. nóvember árið 2012 var hún 71 árs gömul. Þegar hún fór á fætur þennan morgun geispaði hún og var frekar þreytt. Það hýrnaði hins vegar nokkuð yfir henni þegar hún mundi eftir því að von væri á dóttur hennar, Belinda, og dótturdætrum hennar, Alex og Amy.

Evangelina klæddi sig og fór í sturtu. Á meðan sönglaði hún lagið Hallelujah eftir kanadíska söngvaskáldið Leonard Cohen. Hún söng hins vegar lagið á spænsku eins og hún hafði heyrt það í flutningi uppáhalds söngsveitarinnar sinnar, Il Divo. Þegar hún settist aftur á rúmið leið hún út af.

Þegar Onesimo, eiginmaður hennar, uppgötvaði hvað gerst hafði kallaði hann þegar í stað til sjúkrabíl. Hann hóf hjartahnoð en Evangelina sýndi engin viðbrögð.

Evangelina var flutt á sjúkrahús með hraði. Þegar dóttirin, Belinda, kom á sjúkrahúsið og spurðist fyrir um líðan móður sinnar veitti læknir henni þau svör að Evangelina væri látin.

Belinda varð skiljanlega frá sér numin af sorg. Henni var fylgt inn á sjúkrastofuna þar sem móðir hennar lá. Evangelina var enn tengd við öndunarvél og hjartarita sem sýndi skýr merki um að hjarta hennar slægi ekki.

Belinda segist ekki hafa trúað því að Evangelina hafi látist svo skyndilega. Hún settist niður og bað guð að taka móður hennar ekki til sín strax.

Evangelina segir að eftir andlátið hafi hún vaknað á stað sem var skreyttur fjölskrúðugum blómum. Undir henni var hvítt ljós en skyndilega hvarf það og hún sá sjálfa sig liggjandi í sjúkrarúmi á spítala.

Önnur dætra Belinda kallaði á móður sína: „Mamma komdu fljótt. Amma hreyfist.“ Belinda sá að hægri fótur Evangelina hreyfðist. Hún kallaði til lækni sem sagði vöðvakippi strax eftir andlát ósköp eðlilega en skyndilega sýndi hjartaritinn merki um að hjarta Evangelina væri byrjað að slá.

Evangelina var flutt á gjörgæsludeild en fjölskyldan var vöruð við því að heili hennar hefði verið of lengi án súrefnis. Sjálf segist hún hafa enn verið utan líkamans að horfa á atburðarásina og hugsað um það eitt að komast til baka og vakna aftur. Evangelina bað guð að leyfa sér að lifa lengur.

Belinda bað af ákafa. Fjölskylda Evangelina beið við sjúkrabeð hennar í þrjá daga. Læknum hennar til mikillar furðu sýndi hún engin merki um heilaskemmdir eða skemmdir á öðrum líffærum. Hún gat andað sjálf en læknunum til enn meiri furðu vaknaði hún ekki.

Lagið gerir kraftaverk

Alex, dótturdóttir Evangelina, fór þá að spila Hallelujah, í flutningi Il Divo í símanum sínum. Evangelina segist hafa heyrt lagið út undan sér á þessum stað, milli lífs og dauða sem hún var á. Alex og Belinda báðu, í dýpstu einlægni, Evangelina um að vakna. Það gerði hún loks og sagði þá fjölskyldu sinni að hún væri öll þakin gulli eins og í himnaríki.

Tæpri viku seinna fór Evangelina heim. Hún trúði varla því sem hún hafði upplifað en sagðist hafa orðið enn sannfærðari um að guð fylgdist með okkur og blessaði okkur.

Eftir því sem best er vitað er Evangelina enn á lífi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Blótaði og gaf fingurinn áður en hann var tekinn af lífi með köfnunarefni

Blótaði og gaf fingurinn áður en hann var tekinn af lífi með köfnunarefni
Pressan
Fyrir 4 dögum

Maðurinn sem sviðsetti dauða sinn og yfirgaf konu og börn vill ekki segja hvar í Evrópu hann er

Maðurinn sem sviðsetti dauða sinn og yfirgaf konu og börn vill ekki segja hvar í Evrópu hann er