
Þegar að börn þeirra eru lítil eru flestir foreldrar uppteknir við að kenna börnum sínum hluti á við stafrófið og að reima skóna sína. En ekki Sante Kimes. Hún var upptekin við að kenna sonum sínum að ljúga, stela og svindla.
Hún átti eftir að ganga lengra og kenna einum þeirra að myrða. Og hann gerði allt sem mamma sagði.
Sante mun hafa fæðst í Oklahoma árið 1934, ein fjögurra systkina en enginn er nákvæmlega viss um hvað er rétt og satt í þeim efnum þar sem Sante laug stöðugt. Um allt, líka uppruna sinn.

Eldri sonur hennar, Kent Walker, skrifaði síðar bók um móður sína og sagði hann hana hafa verið fædda inn í hefðbundna miðstéttarfjölskyldu sem var miður sín vegna hegðunar Sante. Sjálf sagði Sante föður sinn hafa verið farandverkamann og móður sína vændiskonu sem alið hafi hana upp á götum Los Angeles. Það er þó sennilegast lygi.
Sante giftist menntaskólakærasta sínum rétt eftir útskrift árið 1952 en hjónabandið entist aðeins í þrjá mánuði. Fimm árum seinna endurnýjaði hún kynnin við annan gamlan kærasta, Ewdard Walker og gengu þau í hjónaband og eignuðust soninn Kent.
Sante var sífellt að komast í kast við lögin, ekki síst vegna búðarþjófnaðar, sem pirraði eiginmann hennar mikið. Þau voru sundur og saman allt þar til árið 1969, þegar að þau loksins skildu endanlega.
Sante og Kent voru til margra ára óaðskiljanleg og Kent dáði hina fallegu móður sína sem allir tóku eftir.
Sante leit stórt á sig, fannst hún tvífari leikkonunnar Elizabeth Taylor og sætti sig aðeins við það besta í fatnaði og skarti. Hvernig sem hún komst yfir það.
Kent var aðeins smábarn þegar Sante hóf að þjálfa son sinn í búðarþjófnaði og um átta ára aldurinn kenndi hún honum að brjóta upp lása til að skríða inn um glugga til rána. Hann var nefnilega minni og liprari.
,,Allt sem við áttum var stolið,” sagði Kent síðar. ,,Matur, fatnaður, bílar…bókstaflega allt.”

Þegar Kent var átta ára, árið 1970, datt Sante í lukkupottinn. Hún kynntist Kenneth Kime, sem var forríkur verktaki. Milljónamæringurinn féll fyrir töfrum Sante sem var alsæl.
Það er ekki vitað hvort þau giftu sig á einhverjum tímapunkti, Sante laug öllu og flest öll hennar skjöl voru fölsuð, en fljótlega hófu þau sambúð og árið 1975 kom yngri sonur Sante í heiminn, Kenneth yngri, almennt kallaður Kenny.
Svo virðist sem Kenneth eldri hafi annaðhvort ekki vitað af athæfi konu sinnar eða látið það óáreitt en Sante eyddi öllum sínum tíma í svik og pretti. Hún stal öllu steini léttara, plataði bíla, skart, pelsa og jafnvel heilu fasteignirnar út úr fólki með fölsuðum gögnum. Hún átti þó nokkrar fasteignir sem hún kveikti reglulega í til að svíkja út tryggingafé.

Hún kynnti eiginmann sinn sem sendiherra og var svo trúverðug að henni tókst að fá boð í kvöverð hjá þáverandi forseta Bandaríkjanna. Hún átti það einnig til að kynna sig sem Elizabeth Taylor og var alveg merkilega oft trúað.
Sante naut þess að stela, pretta og svíkja því ekki þurfti hún peningana. Maður hennar átti nóg af þeim. Hún virðist einnig hafa verið sadísk í eðli sínu því hún bauð ungum stúlkum, sem oftast voru heimilislausar og ólöglegir innflytjendur, vel borguð störf sem þjónustustúlkur. En þær stúlkur sem tóku þessu gylliboði áttu skelfilega tíma í vændum.
Sante lét þær vinna allt að 20 tíma á dag, læsti þær inni, barði þær, borgaði þeim ekki laun og hótaði að láta innflytjendayfirvöld vita ef þær hlýddu ekki hverju hennar orði, hvað þá reyndu strok.

En stúlkurnar flúðu nú samt og þurfti Kenneth að eyða stórfé í lögfræðikostnað þar sem Sante var handtekin og ákærð fyrir þrælahald árið 1985. Hún var dæmd í fimm ára fangelsi en sleppt árið 1989. Líf Kent og Kenneth yngra var i fyrsta skipti rólegt og það sem kalla má eðlilegt, árin sem móðir þeirra sat inni og þeir bjuggu með Kenneth eldra.
Hann lést aftur á móti árið 1994 og reyndist lítið eftir af milljónunum. Sante fór því á stúfana ásamt yngri syni sínum Kenny, sem tilbað móður sína og gerði bókstaflega allt sem hún bað um. Það var aldrei í boði fyrir Kenny að segja nei við Sante og honum kom það einfaldlega ekki til hugar. Sumir segja að samband mæðginanna hafi farið á aðrar og dimmari slóðir en það hefur aldrei verið sannað.

Kent hafði aftur á móti slitið naflastrenginn, neitaði alfarið að taka þátt í glæpum hennar og flutti í burtu.
Sante ákvað að næsta ,,framtak” mæðginanna yrði veglegt, eitthvað sem myndi tryggja þeim stórfé.
Og það varð hinni 82 ára gömlu Irene Silverman að bana.
En fyrst var Sante að losa sig við smávegis óþægindi og í mars 1998 skipaði hún Kenny að skjóta mann að nafni David Kazdin til bana. Sante hafði falsað nafn hans til að fá lán upp á 280 þúsund dollara og sett hús hans sem veð. Þegar að Kazdin, sem var kunningi Sante, komst að svikunum hótaði hann að fara til lögreglu. Og það gat Sante ekki liðið. Lík hann fannst í ruslagámi nokkrum dögum síðar.

Irene var forrík ekkja sem hafði verið ein sú þekktasta í samkvæmislífi hinna ofurríku í New York til margra áratuga.
Hún hafði verið glæsileg ung kona, dansari í Radio City Music Hall, þegar hún kvæntist fasteignamógúl að nafni Samuel Silverman árið 1941. Hjónin nýgiftu keyptu sér risastórt hús við það sem kallað eru Upper East Side á Manhattan, við hlið Central Park.
Hús Silverman hjónanna var talið með dýrustu og glæsilegustu fasteignum New York borgar og Irene elskaði að halda veislur og fylla húsið af fólki, tónlist og gleði.
En árið 1989 var Irene orðin ekkja og einmana í stóra húsinu. Hún tók því upp á því að leigja hluta þess, aðallega upp á félagsskapinn. Og meðal leigjendanna var ,,Manny Guerrin.”

Í júlí árið 1998 hvarf Irene og tilkynnti Jeff Feig, er sá um rekstur hússins fyrir Irene, hana týnda til lögreglu.
Í viðtölum við þjónustufólk og aðra leigjendur kom fram að Irene hafði lent i deilum við Manny, sem aðeins hafði leigt hjá henni í viku og greitt 6000 dollara fyrirframgreiðslu.
Manny þótti skrítinn. Hann talaði aldrei við aðra leigjendur, neitaði að láta þjónustufólk þrífa íbúðina sem hann leigði og huldi alltaf andlit sitt þegar hann gekk framhjá öryggismyndavélum hússins. Eina manneskjan sem hann talaði við var ,,aðstoðarkona” hans, eldri kona að nafni Eva Guerro.
Irene leist ekkert á Manny og vildi hann út. En Manny var horfinn líka. Samt sem áður gátu leigjendur og starfsfólk gefið góða lýsingu á honum, svo og Evu.

Lík Irene Silverman hefur aldrei fundist en fljótlega bárust böndin að Kenny sem hinum dularfulla Manny. Mæðginin fundust í Kaliforníu og við leit á heimili Sante og Kenny fannst gullnáma af sönnunargögnum fyrir því að þau hefði skipulagt morðið á Irene í smáatriðum til að komast yfir hús hennar, sem þá var metið á um 8 milljónir dollara.
Sante var þá 63 ára og Kenny 23 ára. En þau voru bæði horfin.
Starfsfólk og leigjendur staðfestu að Kenny væri Manny og Sante væri Eva þegar að þeim voru sýndar ljósmyndir. Í íbúðinni fundust byssur, hárkollur, alls kyns búningar og haugar af fölsuðum skjölum
Lögregla fann skömmu síðar tösku, sem Kenny hafði skilið eftir á Plaza hótelinu í New York og í henni var að finna afsal að húsi Iren. Samkvæmt því hafði Irene gefið þeim Sante og Kenny hús sitt.
Í töskunni var einnig að finna fjölda dagbóka þar sem þau höfðu ritað áætlun sína niður í smáatriðum og einnig allar ferðir Irene. Þar var einnig að finna síðu eftir síðu þar sem þau höfðu æft sig í að falsa undirskrift Irene.
Þrátt fyrir að líkið af Irene Silverman findist aldrei þótti vera yfrið nóg af sönnunargögnum og í maí árið 2000 voru þau Sante og Kenny dæmd fyrir fjölda glæpa, meðal annars morð. Sante fékk dóm upp á 120 ár, Kenny fékk 126 ár.
En sögunni lýkur ekki þar. Í október sama ár var sjónvarpskonan Maria Zone að taka viðtal við Kenny þegar hann greip hana, hélt penna upp að hálsi hennar og sagðist myrða hana ef að móðir hans yrði framseld til Kaliforníu. Þar biðu hennar réttarhöld fyrir morðið á Kazdin og í Kaliforníu var dauðarefsing.
Eftir fjögurra tíma samningaviðræður tókst sérsveit fangelsisins að frelsa skelfingu losna sjónvarpskonuna. En það merkilega er að þau áttu síðar eftir að þróa með sér góða vináttur.

Kenny samþykkti að játa á sig morðið á Kazdin gegn því að bæði hann og móðir hans kæmust hjá dauðarefsingu. Hann samþykkti einnig að segja frá öllum öðrum þeirra glæpum, meðal annars morðinu á Irene. Sagðist hann hafa myrt hana, sett í ruslapoka og hent á ruslahauga í New Jersey. Eins og fyrr segir hefur hún aldrei fundist.

Sante lést í fangelsi árið 2014. Hún var 79 ára gömul.
Kenny situr enn inn og mun deyja innan múranna.