Vinkona hinnar tvítugu Alexu Bartell vissi að eitthvað væri að þegar símasambandið við hana rofnaði skyndilega á miðvikudagskvöld.
Alexa var að keyra heim til sín í Arvada í Colorado að kvöldi miðvikudags og lá vel á henni þegar hún ræddi við vinkonu sína.
Þegar sambandið rofnaði notaði vinkona Alexu app í símanum til að rekja ferðir hennar. Sá hún að Alexa var kyrrstæð og virtist vera utan vegar.
Vinkonan fór á vettvang og kom þá að vinkonu sinni látinni undir stýri. Í ljós kom að grjóthnullungi hafði verið kastað í gegnum framrúðuna og lenti hann í höfði Alexu.
Lögregla fékk fleiri tilkynningar um svipuð tilvik þetta sama kvöld. Á tveggja klukkustunda tímabili var grjóti kastað í fimm bíla og lentu hnullungarnir í framrúðum fjögurra þeirra. Engin slys urðu á fólki í þeim tilfellum.
Leitar lögregla nú að hinum grunuðu og hefur biðlað til almennings um upplýsingar. Virðist sem grjótinu hafi verið kastað úr öðrum bílum eða einhver hafi verið í felum utan vegar og kastað grjótinu þaðan.