Aðstandendur þýska ökuþórsins Michael Schumacher eru sagðir vera að undirbúa málsókn gegn tímaritinu Die Aktuelle vegna vægast sagt undarlegs uppátækis blaðsins.
Eins og DV greindi frá í vikunni var látið að því liggja á forsíðunni að blaðið hefði náð viðtali við Schumacher sem slasaðist lífshættulega í skíðaslysi árið 2013. Var fyrirsögnin á forsíðunni: „Fyrsta viðtalið!“
Síðar kom í ljós að ekki var um að ræða viðtal blaðamanns við Schumacher heldur tilbúið viðtal sem gervigreindarforrit setti saman.
Í sjálfu „viðtalinu“ var svo haft eftir Schumacher að líf hans hefði breyst mikið eftir slysið og undanfarin ár hafi verið erfið eiginkonu hans og börn. „Ég hef gengið í gegnum erfiða tíma en fyrir tilstilli heilbrigðisstarfsfólks er ég kominn aftur í faðm fjölskyldu minnar,“ var haft eftir honum.
Reuters greinir frá því að fjölskylda Schumachers sé mjög ósátt við uppátæki stjórnenda Die Aktuelle – skiljanlega myndu eflaust flestir segja – og eru þeir nú sagðir undirbúa málsókn gegn tímaritinu.
Eiginkona Schumachers, Corinna, fór í mál við tímaritið árið 2015 vegna misvísandi framsetningar á forsíðu blaðsins um ástarlíf dóttur þeirra hjóna. Mátti að hennar mati skilja sem svo að Corinna hefði fundið ástina á ný en fréttin inni í blaðinu var um dóttur þeirra, Ginu. Die Aktuelle hafði betur í umræddu dómsmáli.
Corinna og aðstandendur Schumachers hafa lagt ríka áherslu á að halda einkalífi fjölskyldunnar utan sviðsljóss fjölmiðlana. Í heimildarmynd um Schumacher sem var frumsýnd á Netflix árið 2021 sagði Corinna að þetta hafði ávallt verið stefna Michaels.
„Við reynum að halda áfram sem fjölskylda, eins og Michael vildi og vill enn. Einkamál eru einkamál, eins og hann hefur alltaf sagt.“