„Ef eitthvað hljómar of gott til að vera satt, þá er það því miður oft raunin.“
Það getur borgað sig að hafa þessa setningu í huga þegar farið er til Tenerife eða annarra ferðamannastaða og óprúttnir sölumenn reyna allt sem þeir geta til að pranga upp á þig ódýrum símum eða spjaldtölvum.
Briget Manning, bresk kona á níræðisaldri, lenti aldeilis illa í því á Tenerife fyrir skemmstu þegar sölumaður reyndi að selja henni „hágæða“ spjaldtölvu fyrir aðeins 150 pund, eða 25 þúsund krónur. Og það sem var enn betra: Hún þurfti aðeins að leggja út 26 pund, 4.400 krónur, fyrir að taka tölvuna með sér heim og prófa hana.
Eftir að hafa vandræðast í smástund með að breyta tungumálinu úr spænsku í ensku sneri hún aftur í verslunina í Los Cristianos, daginn sem hún flaug heim, og ákvað að ganga frá kaupum á tölvunni.
Þegar hún kom heim til Bretlands sá hún sér til skelfingar að hún hafði verið rukkuð um 2.128 pund, rúmar 360 þúsund krónur. Um var að ræða peninga sem hún hafði unnið sér inn með því að taka að sér þrif eftir að hún fór á eftirlaun.
„Þetta virtist vera gott tilboð og sölumennirnir voru mjög sjarmerandi,“ segir hún og bætir við að hún hafi verið alveg miður sín síðan hún komst að svikunum. „Ég er búin að gráta í marga daga og sef eiginlega ekkert,“ segir Bridget sem er 84 ára ekkja.
Fréttavefurinn Thisismoney.co.uk fjallaði um mál Bridget í vikunni og segist hafa heyrt af fjölmörgum sambærilegum dæmum frá breskum ferðamönnum á Tenerife. Tenerife nýtur mikilla vinsælda meðal Íslendinga og hefur verið fjallað um sambærileg tilfelli hjá íslenskum ferðamönnum. Þá rataði frétt um mál Bridge í Facebook-hóp Íslendinga á Tenerife.
En hvernig fara svikahrapparnir að þessu?
Bridget segir að sölumennirnir hafi tjáð henni að kortið hennar – sem hún notar á ferðalögum – hafi ekki virkað. Eftir þrjár tilraunir ákvað hún að prófa annað kort sem hún er með hjá spænska bankanum Santander og þurfti hún að slá inn PIN-númer.
Bridget rifjar upp að sölumaðurinn hafi danglað posanum fyrir framan hana og haldið fyrir skjáinn þannig að hún sá ekki upphæðina sem hann sló inn á posann og þá hafi engin kvittun prentast út. Þá vekur hún athygli á því að sölumennirnir hafi lagt ríka áherslu á að hún kæmi í verslunina síðasta daginn til að ganga frá kaupunum en tilgangur þess sé augljós. Þegar svikin koma í ljós sé viðkomandi alla jafna mörg hundruð kílómetrum í burtu í öðru landi og erfiðara en ella að bregðast við.
Bridget kveðst hafa haft samband við Santander-bankann og tilkynnt svikin. Þar fékk hún þau skilaboð að bankinn gæti ekkert gert enda hefði hún sjálf slegið inn PIN-númerið til að greiða fyrir vöruna. Í frétt Thisismoney.co.uk kemur fram að Santander-bankinn hafi þó greitt henni þau 2.128 pund sem hún tapaði eftir að hafa blaðamaður spurðist fyrir um málið hjá bankanum.
Segist talsmaður bankans hvetja ferðalanga til að ganga úr skugga um að þeir séu rukkaðir um rétta upphæð með því að fylgjast vel með því sem viðkomandi sölumaður slær inn á posann.