Nýafstaðinn vetur var sá þurrasti í Frakklandi í 64 ár. Það er ekki gott að fá þurrka á röngum árstíma, og svo sem ekki heldur á „réttum“ árstíma. Núna er staðan þannig að grípa þarf til vatnsskömmtunar í suðurhluta landsins.
Ef ekki bætir í úrkomuna í vor, getur árið orðið hörmulegt á þessum slóðum.
Það hefur aldrei gerst áður að grípa hefur þurft til vatnsskömmtunar í Frakklandi á þessum árstíma.
Þurrkar hafa lengi herjað á Frakkland. Frá því í ágúst 2021 hefur úrkoman í hverjum mánuði, að þremur undanteknum, verið minni en í meðalári.
Þurrkar á sumrin eru ekki óvanalegt fyrirbæri en það gerir ástandið enn verra að það vantar snjó á veturna. Snjómagnið í Ölpunum er nú 50-60% minna en í meðalári.