Þegar lokaðist fyrir gasstreymið frá Rússlandi til Evrópu á síðasta ári settu mörg ríki, þar á meðal Þýskaland, Ítalía og Bretland, kolaorkuver í viðbragðsstöðu til að mæta yfirvofandi gasskorti. Þetta olli mörgum áhyggjum því vitað er að jarðefnaeldsneyti menga meira en aðrir orkugjafar.
En með því að það tókst að framleiða svo mikið rafmagn með vind- og sólarorku tókst að koma í veg fyrir að brenna þyrfti eins miklu magni kola og óttast var.
Á síðasta ári var 22% af raforkunni í ESB framleidd með vind- og sólarorku. Sky News skýrir frá þessu.
Kol voru notuð til að framleiða 16% af því rafmagni sem þurfti og jókst hlutfall kolanotkunar við raforkuframleiðslu um 1,5 prósentustig.
Það kom álfubúum einnig til góða að raforkunotkun dróst saman um 7,9% á síðasta ársfjórðungi 2022 miðað við sama tímabil 2021. Milt veður hafði mikið um þetta að segja en einnig áhyggjur fólks af raforkuverði, bætt nýting raforku og minni rafmagnsnotkun almennings.