fbpx
Fimmtudagur 27.júní 2024
Pressan

Rapparinn Big Lurch var sakfelldur fyrir að myrða herbergisfélaga sinn og éta úr henni lungað – En var allt sem sýndist?

Pressan
Þriðjudaginn 14. febrúar 2023 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rapparinn Antron Singleton var betur þekktur sem Big Lurch, enda um tveir metrar á hæð. Hann þótti efnilegur í hiphop heiminum og einn af frumkvöðlunum í undirflokknum „horrorcor“ hann var við það að slá í gegn þegar það óhugsanlega átti sér stað og gerði út af við öll framtíðaráform hans. En var allt sem sýndist eða var Birg Lurch rangur maður á röngum tíma?

Big Lurch var fæddur í Texas í Bandaríkjunum í september árið 1976. Hann var aðeins 7 ára gamall þegar hann byrjaði að semja ljóð og fór að flytja þau formlega þegar hann var fimmtán ára. Ólíkt mörgum öðrum, sem skrifuðu texta um fíkniefni, gengi og kynlíf þá kaus Big Lurch að rappa um hluti á borð við raðmorðingja, vampírur og jafnvel mannát.

Hann tók þátt í rapphópnum Cosmic Slop Shop og skilaði það samstarf af sér plötunni Da Family sem kom út árið 1998 og mátti þar finna einn slagara sem fékk nokkra hlustun. Þetta samstarf entist þó ekki lengi en Big Lurch dreymdi um að verða frægur rappari svo hann kom sér fyrir í Los Angeles og hóf að vinna með öðrum sem voru að reyna fyrir sér.

Almennt þykir ljóst að hann hafi oft verið við það að „meika það“ en aldrei gekk það þó alveg eftir. Árið 2000 lenti hann svo í bílslysi sem varð upphafið að endalokum ferils hans.

Hann var að keyra heim úr 24 ára afmælinu sínu þegar jeppi keyrði aftan á hann. Big Lurch slasaðist alvarlega, meðal annars hálsbrotnaði hann.

Til að meðhöndla verkina sem hann glímdi við eftir slysið fékk hann uppáskrifað mikið af lyfjum en honum fannst ekkert þeirra slá almennilega á verkinn. Hann hafði prófað fíkniefnið PCP, eða englaryk, þegar hann var yngri og mundi að það hefði virkað deyfandi svo hann fór að reykja efnið til að meðhöndla verki sína og varð fljótt háður áhrifum lyfsins. Með tíð og tíma fór hann að missa tökin á raunveruleikanum og var jafnvel farinn að fá ofsjónir.

Taldi heiminn vera að enda

Kvöld eitt árið 2002 fór hann í partý og þar var mikið reykt af PCP. Það seinasta sem hann man eftir því kvöldi er að hafa hugsað að heimurinn væri að enda og það væri hans hlutverk að finna og drepa sjálfan djöfulinn. Næst þegar hann vissi af sér var hann í fangelsi sakaður um morð.

Partýið hafði verið heima hjá Big Lurch og að sögn vitna bað hann skyndilega alla um að yfirgefa húsið nema hina 21 ára Tynisha Ysais, sem var herbergisfélagi hans. Þeirri kenningu var haldið fram í réttarhöldunum að þegar hann og Ysais voru ein eftir í íbúðinni hafi hann ráðist á hana, barið illlega og svo banað henni með því að stinga hana í hjartað með hníf. Hann hafi þó ekki verið búinn því eftir þetta hafi hann rist hana á hol, rifið úr henni lungað og lagt sér það til munns.

Þegar lögregla hafði hendur í hári rapparans var hann að hlaupa niður göturnar nakinn, þakinn blóði. Heimildum ber ekki saman með nákvæmlega í hvaða ástandi hann var er lögregla handtók hann. Sumir segja að Big Lurch hafi verið með hálfétið lunga í annarri hendinni og aðrar að hann hafi gelt eins og hundur og starað upp til himins.

Heimildum ber þó saman að í kjölfar handtökunnar hafi verið framkvæmd læknisskoðun á honum, meðal annars á magainnihaldi, og þar fundist hold og blóð úr annarri manneskju.

Big Lurch reyndi að bera því við, er málið fór fyrir dóm, að hann væri ósakhæfur, að ráðum lögmanns hans. Kviðdómur var þó á öðru máli og í júní 2003 var hann fundinn sekur um morð af yfirlögðu ráði, pyntingar og röskun á almannafrið. Hann var dæmdur í tvöfalt lífstíðar fangelsi án möguleika á reynslulausn.

Var Big Lurch saklaus?

Móðir Ysais, Carolyn Stinson, hefur ítrekað sagt að hún trúi því ekki að Big Lurch hafi myrt dóttur sína. Kærasti Ysais hafi verið í gengi og líklega hafi hann skipulagt þetta allt saman. Hann hafði beitt hana ofbeldi og hafi hún verið að undirbúa það að fara frá honum. Carolyn trúir að Big Lurch hafi, í vímu, komið að líkinu, fundið lungað á gólfinu og talið að þar væri kjöt á ferðinni og því borðað það.

Big Lurch hefur viðrað svipaða kenningu. Fólk í partýinu hafi viljandi verið að halda að honum fíkniefnum þetta kvöld, líklega gagngert til að koma á hann sök. Hann hefur haldið því fram að tannaför sem fundust á lunga og andliti Ysais hafi ekki passað við hans tannaför. Mögulega hafi þau komið frá hundi. Carolyn hefur einnig bent á að svo mikið magn PCP hafi fundist bæði í Ysais og Big Lurch sjálfum að það sé nokkuð ljóst að þau hafi ekki reykt þetta mikið heldur hafi því verið hellt ofan í þau.

Big Lurch hefur gagnrýnd verjanda sinn mikið og telur hann hafa tekið styttri leiðina í gegnum málið. Hann hafði þetta að segja um vörn sína:

„Láttu kviðdóminn hata sakborninginn og kviðdómurinn mun sakfella. Tannaförin á líkama Tynishu pössuðu ekki við mín. Lögmaðurinn minn Milton Grimes sagði ekkert um það í dómsal. Þau sakfelldu mig á einu hádegishléi. Það var enginn dagur tekinn til umhugsunar, það var ekki einu sinni klukkustund.

Verjandinn var umboðsmaður Big Lurch

Þessi Milton Grimes var jafnframt umboðsmaður Big Lurch og telur Big Lurch að Grimes hafi viljað að hann yrði sakfelldur til að selja tónlist hans, eða jafnvel til þess að fá greiða til að ljúka öðru máli sem hann var að reka.

Því til stuðnings mætti nefna að útgáfufyrirtækið sem Big Lurch var á samningi hjá, nýtti tækifærið eftir að hann var dæmdur í fangelsi og gaf út bæði plötu og heimildarmynd án hans leyfis.

Big Lurch sagði síðar:

„Ég var á samningi við útgáfufyrirtæki Milton Grimes. Hann var líka verjandinn minn svo ég treysti honum. Grimes sagði aldrei að það hefði verið Pit Bull [hundur] í dópgreninu með okkur. Frekar en það fór Grimes í Geraldo þáttinn og spilaði þar óútgefið lag með mér – Texas Boy.“

Hann sagði að lagið hafi svo verið notað af ákæruvaldinu til að reyna að benda til þess að honum hafi dreymt um að fremja morð, út af texta lagsins sem var frekar grófur enda í stílnum horrorcore. Lögmaður hans hafi svo ekki gefið honum almennileg föt til að vera í við réttarhöldin og þykir Big Lurch ljóst að Grimes hafi viljað að hann liti út eins og Hannibal Lecter.

Margt sem vekur spurningar

Hann hefur bent á að fingraför hans hafi ekki einu sinni fundist á morðvopninu. Morðið hafi átt sér stað í dópgreni en ekkert dóp hafi fundist á staðnum. Þarna hafi líka verið mikið af vopnum, byssum og öðru en þegar lögregla kom var ekkert slíkt á svæðinu. Taldi Big Lurch ljóst að meðlimir í gengjum, sem hann hafi hangið með, hafi hreinsað húsið til áður en yfirvöld komu á svæðið.

„Grimes vildi að ég lýsti yfir ósakhæfi því ég var í PCP vímu og hann veit að maður getur ekki notað fíkniefni til að bera við ósakhæfi í Kaliforníu. Hann hendi mér undir vagninn. Hann fékk ekki einu sinni yfirlýsingu frá móður Tynishu, Carolyn og samt var hún tilbúin að bera vitni og segja að ég hafi verið borinn röngum sökum.“

Carolyn hefur einnig bent á að Ysais hafi verið með áverka aftan á hálsi eftir hlaupahjól og hlaupahjólið hafi fundist á vettvangi og á því var blóðugt handafar sem ekki tilheyrði Big Lurch. Eins hafi erfðaefni fundist á svæðinu sem ekki tilheyrði Big Lurch en lögreglan hafi týnt því.

Eins hefur verið bent á að lögregla hafi skrifað í skýrslu sinni að Big Lurch hafi fundist þakinn blóði en þegar myndir frá þessum degi séu skoðaðar þá hafi ekki verið mikið blóð á honum.

Big Lurch er enn í fangelsi og leitar enn leiða til að fá mál sitt tekið upp að nýju. Telur hann að brögð hafi verið í tafli. Skoðanir eru skiptar í málinu. Var Big Lurch gerður að blóraböggli fyrir glæp einhvers annars eða er hann morðingi og mannæta?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Rauðu flöggin sem fjölskylda raðmorðingjans Ted Bundy hunsaði í uppvexti hans – „Augu hans urðu svört þegar þau vönguðu saman“

Rauðu flöggin sem fjölskylda raðmorðingjans Ted Bundy hunsaði í uppvexti hans – „Augu hans urðu svört þegar þau vönguðu saman“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Átt þú gullmola í geymslunni – 80´s leikföngin sem seljast fyrir stórfé

Átt þú gullmola í geymslunni – 80´s leikföngin sem seljast fyrir stórfé
Pressan
Fyrir 5 dögum

Fundu kolefni frá árdögum alheimsins – Gengur gegn skilningi okkar á hvernig lífið gæti hafa myndast

Fundu kolefni frá árdögum alheimsins – Gengur gegn skilningi okkar á hvernig lífið gæti hafa myndast
Pressan
Fyrir 5 dögum

Foreldrar varaðir við að láta ekki börnin lenda í „lúxusgildrunni“

Foreldrar varaðir við að láta ekki börnin lenda í „lúxusgildrunni“