Fyens Stifttidende segir að niðurstöður áralangrar rannsóknar hafi leitt í ljós að gulrætur geti komið í veg fyrir að krabbamein þróist í ristlinum. Það voru vísindamenn við SATCC á OUH Svendborg sjúkrahúsinu, Karólínska sjúkrahúsinu og Umeå háskólanum sem stóðu að rannsókninni.
Tilraunir voru gerðar á rottum og næsta skref er að gera tilraunir á fólki að sögn Gunnar Baatrup, sem stýrði rannsókninni. Í samtali við Fyens Stifttidende sagði hann að hópurinn hafi rannsakað þetta af krafti síðustu tuttugu árin, ekki bara á rottum heldur einnig í tilraunum á rannsóknarstofum, með erfðafræðirannsóknum og með rannsóknum á fólki. Unnið hafi verið að rannsókninni út frá öllum hugsanlegum vinklum og niðurstaðan sé alltaf sú sama, að gulrætur geti komið í veg fyrir krabbamein og eins og staðan sé núna sé meiri ávinningur af því að borða tvær gulrætur á dag en að nota allt danska krabbameinsleitarkerfið.
Vísindamennirnir reikna með að það muni taka um hálft annað ár að finna fólk sem vill taka þátt í rannsókninni.
Rannsóknin sýnir að það er ákveðin tegund gulróta sem þarf að borða til að minnka líkurnar á krabbameini. Þetta eru gulrætur sem innihalda mikið af efnunum falcarinol og falcarindiol en þau geta hamið þróun krabbameinsfruma.