Þetta gerðist um klukkan 13 á Moselgade á Amager í Kaupmannahöfn. Í tilkynningu frá lögreglunni segir að lögreglumenn hafi verið við störf í íbúð í fjölbýlishúsi þegar ráðist var á lögreglumann og hann stunginn. Lögreglumenn brugðust við með því að skjóta árásarmanninn og lést hann á vettvangi.
Lögreglan veitti ekki frekari upplýsingar um málið þar sem óháð rannsóknarnefnd um störf lögreglunnar tók strax við rannsókn þess. Nefndin rannsakar öll mál þar sem lögreglan beitir skotvopnum sem og önnur mál þar sem meiðsli eða andlát eiga sér stað í tengslum við störf lögreglunnar.
Danskir fjölmiðlar skýrðu frá því í gær að hinn látni hafi átt að mæta fyrir dómara 15 mínútum eftir að hann var skotinn til bana. Hann hafði verið ákærður fyrir minniháttar brot.
Lögreglumaðurinn var fluttur á bráðamóttöku ríkissjúkrahússins í Kaupmannahöfn. Hann gekkst undir aðgerð þar í gær og er ekki sagður í lífshættu.