The Guardian hefur komist yfir eintak af bókinni þrátt fyrir miklar öryggisráðstafanir í tengslum við útgáfu hennar.
Blaðið birti umfjöllun um bókina í nótt og þar kemur meðal annars fram að í bókinni segi Harry frá deilum við Vilhjálm bróður sinn sem enduðu með átökum.
Þetta á að hafa gerst heima hjá Harry í Lundúnum 2019. Segir Harry að Vilhjálmur hafi sagt Meghan, eiginkonu Harry, vera „erfiða, dónalega og óþægilega“.
Orðaskak þeirra bræðra færðist í aukana að sögn Harry og endaði með að Vilhjálmur „greip í hálsmálið á mér, eyðilagði hálskeðjuna mína og sló mig í gólfið“.
Hann segist hafa hlotið sýnilega áverka við þetta því hann lenti á bakinu á matarskálum hundsins og fékk áverka við það.
Bókin heitir Spare og kemur út í næstu viku.
Í umfjöllun The Guardian segir að bókin sé áhugaverð og að kaflinn, þar sem Harry segir frá deilunum við Vilhjálm, sé mjög athyglisverður. Í honum segir Harry að ástæðan fyrir heimsókn Vilhjálms hafi verið þær „hörmungar“ sem áttu sér stað á milli bræðranna og bresku slúðurblaðanna. Vildi Vilhjálmur ræða um þetta en Harry segir að Vilhjálmur hafi verið reiður þegar hann kom heim til sín Eftir að hann hafði gagnrýnt Meghan svaraði Harry honum og úr varð rifrildi þar sem þeir létu ókvæðisorðum rigna yfir hvorn annan.
„Þetta gerðist svo hratt. Mjög hratt. Hann greip í hálsmálið, eyðilagði hálskeðjuna mína og sló mig í gólfið. Ég lenti á skál hundsins sem brotnaði og hlutar úr henni stungust inn í mig. Ég lá ringlaður á gólfinu í smá stund, síðan stóð ég upp og bað hann um að fara,“ segir Harry.
Hann segir að Vilhjálmur hafi beðist afsökunar þegar hann fór.