Lögreglunni barst tilkynning snemma í morgun um að bíll hefði lent í óhappi í bænum. Þegar lögreglumenn komu á vettvang reyndist ökumaðurinn vera fimm ára. Hann hafði tekið bíllykla foreldra sinna og skellt sér í bíltúr. Aftonbladet skýrir frá þessu.
En barnið var ekki eitt á ferð því það hafði tekið systkin sitt með. Ekki er skýrt frá aldri þess né kyni.
Ökumanninum unga tókst að aka 150 metra, mjög hægt, áður en hann ók á tvo kyrrstæða bíla.
Það var vegfarandi sem sá börnin í bílnum og lét lögregluna vita.