Lengi hefur verið vitað að hreyfing dregur úr líkunum á alvarlegum veikindum því hún styrkir ónæmiskerfið. Daily Mail segir að nú telji vísindamenn að það að halda sér í formi geti komið að gagni við að bægja sýkingum frá líkamanum.
Rannsóknin byggist á greiningu á rúmlega tíu alþjóðlegum rannsóknum. Niðurstaðan var að 150 mínútna hreyfing, hið minnsta, með hæfilegri ákefð, til dæmis með rösklegri göngu eða dansi, dró úr líkunum á að smitast af kórónuveirunni um 11%.
Sömu áhrif sáust þegar fólk stundaði 75 mínútna kröftuga hreyfingu í viku hverri, undir þetta falla hlaup, sund, knattspyrna og fleiri íþróttir.
Fólk sem stundaði reglulega líkamsrækt var í 43% minni hættu á að deyja eða veikjast alvarlega af kórónuveirunni en þeir sem ekki stunduðu reglulega líkamsrækt.