BBC skýrir frá þessu. Þetta er elsta hjartað sem nokkru sinni hefur fundist. Það veitir ákveðnar vísbendingar um hvernig mannslíkaminn hefur þróast yfir í að vera eins og hann er í dag.
Kate Trinjastic, prófessor við Curtin háskólann í Perth í Ástralíu, stýrði vinnu hópsins sem fann hjartað. „Við sátum við tölvuna þegar við sáum að þetta var hjarta sem við höfðum fundið. Við trúðum þessu varla. Þetta var ótrúlega spennandi,“ sagði hún í samtali við BBC og bætti við að þetta væri afgerandi hvað varðar þróunarsögu mannsins.
Hjartað fannst í Gogofiski en það var ráðandi tegund á jörðinni í 60 milljónir ára. Þetta var fyrsti fiskurinn sem þróaði með sér kjálka og tennur. Fyrri tegundir fiska urðu aldrei lengri en 30 cm en Gogofiskur gat orðið lengri en það.
Rannsóknir á steingervingum sýna að hjarta Gogofiska var mun flóknara er hjarta frumstæðari fiskategunda. Það var með tvö hjartahólf og minnir á mannshjartað hvað varðar uppbyggingu.
Hjartað var staðsett framar í líkama fiskins en hjá öðrum fiskum og er talið að það hafi átt sinn þátt í að lungu þróuðust hjá öðrum tegundum.