Sky News segir að rannsóknir hafi leitt í ljós að 12% af loftsteininum sé vatn. Hann veitir því mikilvægar upplýsingar um hvernig vatn barst til jarðarinnar.
Ashley King, hjá breska náttúrufræðisafninu, sagði að loftsteinninn sé merkur fyrir þær sakir að hann sé minnst „mengaði“ loftsteinninn sem hefur fundist á jörðinni. Með því á hann við að hann hafi ekki orðið fyrir miklum áhrifum af efnum hér á jörðinni. Vísindamenn fundu loftsteininn og tóku í sína vörslu tæpum 12 klukkustundum eftir að hann hrapaði til jarðar.
King sagði að samsetning vatnsins, í loftsteininum, sé mjög lík samsetningu vatns hér á jörðinni. „Þetta er mjög góð sönnun fyrir að loftsteinar og hlutir eins og Winchcombe-loftsteinninn hafi átt mjög mikilvægan hlut að máli hvað varðar tilurð heimshafanna,“ sagði hann á British Science Festival.