Norskir vísindamenn rannsökuðu áhrif lýsisneyslu á líkamann og hvort hún geti komið að gagni við að halda kórónuveirunni skæðu fjarri. Norska ríkisútvarpið skýrir frá þessu.
Niðurstaðan kom þeim á óvart en hún var mjög skýr. Lýsisneysla hefur nákvæmlega engin áhrif gegn kórónuveirunni né gegn öðrum öndunarfæra sjúkdómum.
Þessi niðurstaða byggist á rannsókn sem 35.000 manns tóku þátt í. Helmingurinn fékk lýsi daglega síðasta vetur en hinn helmingurinn maísolíu. Sítrónubragð var af báðum drykkjunum svo þátttakendurnir vissu ekki hvort þeir fengu lýsi eða maísolíu.
Í ljós kom að enginn munur var á hópunum. Rannsóknin stóð yfir í sex mánuði og á þeim tíma veiktist svipað stór hluti úr báðum hópum af kórónuveirunni.
„Við erum hissa á niðurstöðunni og héldum að fólk, sem fékk viðbótar D-vítamín, myndi komast betur í gegnum þetta,“ sagði Arne Søraas, smitsjúkdómalæknir.
Hann sagðist telja að það geti samt sem áður verið góð hugmynd að taka lýsi því það geti haft önnur jákvæð áhrif á líkamann.