Qeqertaq Avannarleq er ísjaki. Videnskab.dk skýrir frá þessu.
Það var í leiðangrinum Leister Go North í síðasta mánuði sem í ljós kom að um ísjaka er að ræða.
Í leiðangrinum átti að rannsaka Qeqertaq Avannarleq og fleiri litlar eyjur sem hafa fundist norðan við Grænland í gegnum tíðina.
René Forsberg, prófessor við danska tækniháskólann, var með í leiðangrinum. Hann sagði í samtali við Videnskab.dk að í ljós hafi komið að sjór var undir „eyjunum“ og að það sem talið var að væru eyjur væri í raun ísjakar sem eru þaktir mold og möl á yfirborðinu.
Áður en Qeqertaq Avannarleq fannst á síðasta ári var heimsins nyrsta eyja Oodaaq sem fannst 1978. En hún fær ekki titilinn sinn aftur sem nyrsta eyja heims því leiðangursmenn komust að þeirri niðurstöðu að hún geti ekki lengur talist vera eyja.
Nyrsta eyja heims er því nú Inuit Qeqertaat (Kaffiklúbbseyjan).