Illustrerert Videnskab segir að hópur fornleifafræðinga frá Frakklandi, Kína og Egyptalandi hafi hugsanlega fundið svarið við þessu.
Í grein í vísindaritinu PNAS sýna þeir fram á að kvísl úr Níl hafi legið alveg upp að píramídunum í Giza. Segja þeir að egypskir verkfræðingar hafi notað Níl og hin árlegu flóð í henni til að flytja steinblokkir að byggingasvæðinu með því að nota snilldarlegt kerfi farvega og lóna sem hafi myndað hafnarsvæði við rætur Giza-hásléttunnar.
Píramídarnir í Giza eru á risastórri sandsléttu í um 8 km fjarlægð frá Níl. Það er löng vegalengd til að flytja stórar steinblokkir án þess að hafa kranabíla eða flutningabíla til umráða. Af þeim sökum hafa lengi verið uppi getgátur um að Egyptar hafi flutt steinblokkirnar til Giza eftir uppþornaðri kvísl Nílar, kvísl sem nefnist Khufu.
Nú telja vísindamenn sig hafa sannað þessa kenningu. Með því að vinna frjókorn úr árfarvegum hafa þeir endurskapað jarðfræðilega sögu svæðisins. Þeir fundu ummerki um vöxt rúmlega sextíu ólíkra tegunda plantna og sýna þær hækkun og lækkun vatnsborðsins á 8.000 ára tímabili.