Daily Mail skýrir frá þessu. Fram kemur að vísindamenn hafi komist að því að fólk sem neytti 78 mg á dag af sætuefnum, sem er svipað magn og er í hálfri dós af sykurlausum gosdrykk, væri allt að tíu prósent líklegra til að fá hjartaáfall. Sami hópur var tuttugu prósent líklegri til að fá heilablóðfall.
Frönsku vísindamennirnir, sem gerðu rannsóknina, segja að að ekki eigi að líta á sætuefni sem öruggan valkost við sykur.
Rannsóknin hefur verið birt í vísindaritinu British Medical Journal. Hún byggist á tíu ára rannsókn á 100.000 manns. Niðurstöður hennar bætast við niðurstöður annarra rannsókna sem benda til að sætuefni geti verið skaðleg heilsunni.
Óháðir sérfræðingar vara við að tengslin á milli sætuefna og hjartavandamála séu ofmetin, hættan af sykurneyslu sé vel þekkt. Þeir segja að ekki sé hægt að komast að niðurstöðu um áhrif sætuefna án þess að gera lengri og stærri rannsóknir.